Veðurstofan setti met í viðvörunum

Veðurstofan setti viðvaranamet árið 2022.
Veðurstofan setti viðvaranamet árið 2022. mbl.is/Arnþór Birkisson

Veðurstofa Íslands gaf alls út 456 viðvaranir árið 2022 og setti þar með met í fjölda appelsínugulra og rauðra viðvarana á einu ári.

Birtir stofan pistil með samantekt um viðvaranir á síðu sinni og deilir honum á Facebook með þeirri kynningu að kannski sé við hæfi svona inn á milli lægða að vekja athygli á viðvaranameti þessu.

Þegar rýnt er í samantektina kemur í ljós að gular viðvaranir voru 372 í fyrra, appelsínugular 74 og rauðar viðvaranir voru tíu. Aldrei hafi svo margar í tveimur síðarnefndu litunum verið gefnar út á einu og sama árinu síðan Veðurstofan tók núverandi viðvörunarkerfi í notkun í nóvember 2017.

Rauðar dreifðust á sjö svæði

Dreifing viðvarana milli spásvæða hafi verið hafi verið misjöfn. Flestar hafi verið gefnar út fyrir Suðurland og Suðausturland, fæstar fyrir Austurland að Glettingi. Rauðar viðvaranir dreifðust á sjö spásvæði. Fyrir nánast sléttu ári, 7. febrúar 2022, voru rauðar viðvaranir í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa og Suðurland vegna hríðarveðurs.

Hálfum mánuði síðar, 21. febrúar, voru rauðar viðvaranir í gildi fyrir sömu spásvæði vegna vinds. Þá var rauð viðvörun vegna vinds í gildi á Austfjörðum 25. september en 9. október giltu rauðar viðvaranir fyrir Norðurland eystra og Austurland að Glettingi vegna hríðar en á Suðausturlandi vegna vinds. Allt í allt tíu rauðar viðvaranir.

Samantekt veðurstofunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert