Eins og að hafa slökkt á götuljósum til að spara

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir ríkið hljóta að geta haldið …
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir ríkið hljóta að geta haldið úti tveimur flugvélum. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að það að minnka öryggisráðstafanir með því selja flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, í sparnaðarskyni sé eins og að hafa slökkt á götuljósum borgarinnar á nóttunni til að spara.

Dómsmálaráðuneytið tilkynnti Landhelgisgæslunni fyrr í vikunni að rekstri flugvélarinnar yrði hætt í hagræðingarskyni og að Gæslan skyldi undirbúa söluferli vélarinnar.

Magnús Tumi segist í samtali við mbl.is ekki skilja ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, enda hljóti íslenska ríkið að geta haldið úti tveimur flugvélum. Slíkt hafi verið gert á árunum eftir hrun þegar fjárhagserfiðleikar ríkisins voru töluvert meiri en nú, en vélin kom til Íslands í júlí árið 2009.

Dómsmálaráðherra segir að TF-SIF sé lítið notuð og mest notuð suður í höfum en hann segir til greina koma að sam­nýta flug­vél Isa­via, sem einnig er í eigu rík­is­ins og lítið notuð. 

Slökkvitæki nauðsynleg þótt það kvikni ekki í

Magnús Tumi segir rökin um að flugvélin sé lítið notuð ekki halda vatni. Hann líkir því við það að fólk vilji almennt hafa slökkvitæki heima hjá sér þó svo að það kvikni ekki í.

Hann segir að æskilegt væri að hafa vélina á Íslandi allan ársins hring en þrátt fyrir að hún sé í notkun suður í höfum hluta ársins þá sé ákvæði í samningum með útleigu vélarinnar þannig að hægt sé að fá vélina heim með stuttum fyrirvara.

Það hafi áður reynt á það þegar flugvélin var send heim árið 2014 þegar aðstæður gáfu það til kynna að eldgos gæti verið að hefjast í Bárðarbungu.

Þjóna ólíku hlutverki

Magnús segir að hlutverk TF-SIF og flugvélar Isavia sé töluvert ólíkt. TF-SIF sé búin radartækni sem hafi nýst vel til að kanna eldgos þegar þau hefjast og skyggni er ekki nógu gott. Þær upplýsingar séu nauðsynlegar þegar kemur að því að meta náttúruvá.

Hann bendir einnig á að vegna strangra öryggirkrafa fyrir flugvélarnar, þá sé nauðsynlegt að önnur þeirra sé til taks þegar hin er í yfirhalningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert