Ekki heimild fyrir sölu TF-Sifjar í fjárlögum

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Arnþór

Ekki er heimild í fjárlögum fyrir sölu á sérútbúnu eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-Sifjar. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir í samtali við mbl.is að heimild sé fyrir sölu á þyrlunni TF-Líf og kaupum á þremur þyrlum í staðinn. Ekki sé heimild fyrir sölu Sifjar. 

Hefði þurft að ræða

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra tilkynnti í gær að vélin skyldi seld í hagræðingarskyni.

„Allar svona stórar ákvarðanir eiga að fara í gegnum heimildargrein í fjárlögum. Við höfum vitað af því að vélin hafi verið leigð til að taka inn tekjur en það hefur aldrei verið óskað eftir heimild til að selja hana. Það er eitthvað sem við hefðum þurft að ræða markvisst í umræðu fjárlaga,“ segir Bjarkey.

Boðar dómsmálaráðherra á fund fjárlaganefndar

Bjarkey hefur boðað fundar í fjárlaganefnd á morgun til að ræða fyrirhugaða sölu. Hún hefur óskað viðveru dómsmálaráðherra og Landhelgisgæslunnar.

„Þetta þarfnast ítarlegrar umræðu, ekki síst hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir öryggi hjá Landhelgisgæslunni en ekki síður þegar kemur að jarðhræringum og öðru slíku. Þetta er það stórt mál að það þarfnast þess að farið verði vel ofan í það,“ segir Bjarkey enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert