Bar eld að eigin brjóstum

Margrét Erla Maack í essinu sínu í New York.
Margrét Erla Maack í essinu sínu í New York. mbl.is/Árni Sæberg

Er nema von að þeim hafi brugðið í brún, gestunum á hinum sögufræga burlesque-stað Lady Mendl‘s Tea Salon í New York, þegar Margrét Erla Maack, burlesque-drottning Íslands, bar eld að eigin brjóstum á sýningu þar fyrr í vetur. Slík fífldirfska er ekki daglegt brauð. Eitt af aðalatriðum Margrétar er sumsé atriði þar sem hún er sveipuð perlum og fjöðrum en endar á því að kveikja í eldbrjóstadúskum.

Lady þessi Mendl var mikil félags- og samkvæmisvera og upp á sitt besta snemma á síðustu öld, frá 1910 og fram á þriðja áratuginn. Hún giftist milljónamæringnum Sir Charles Mendl af hagkvæmnisástæðum. Þau lifðu aldrei hefðbundnu hjónalífi enda var Lady Mendl lesbía og átti áratugum saman í ástarsambandi við konu að nafni Elisabeth Marbury. Báðar voru þær framakonur. Lady Mendl var ein af fyrstu innanhússarkitektunum í New York en Marbury fyrsti kvenkyns framleiðandinn á Broadway. Meðal skjólstæðinga hennar voru Oscar Wilde og George Bernard Shaw sem jafnframt voru tíðir gestir á Lady Mendl‘s Tea Salon.

Margrét á sviðinu í The Slipper Room, sem einnig er …
Margrét á sviðinu í The Slipper Room, sem einnig er vinsæll burlesque-staður í New York. mbl.is/Árni Sæberg


„Þarna var alltaf partí á kvöldin, burlesque-kabarett-sýning, þar sem hápunkturinn var þegar Lady Mandl stóð sjálf á haus – nakin,“ segir Margrét. „Menningarelítan lét sig ekki vanta.“

Eins og heima í stofu

Sú sem ræður ríkjum á Lady Mendl‘s Tea Salon í dag kallar sig Tansy og er þeim Margréti vel til vina. Bæði Margrét og íslenska dragdrottningin Gógó Starr komu þar fram þetta kvöld. „Þetta er eins og að troða upp heima í stofu hjá einhverjum, mjög kósí stemning og alltaf fullt enda þótt aldrei sé auglýst. Það komast á bilinu 30-40 manns fyrir á kvöldi.“

Og enginn dettur þarna inn á gallabuxunum. „New York-búinn er alla jafna ekkert að dressa sig upp. Það er langt að fara heim og fólk skellir sér bara út að borða eða á sýningu eftir vinnu. Þessu er þveröfugt farið á Lady Mendl‘s. Fólk klæðir sig undantekningarlaust upp. Þetta er algjör tímavél og yndislegt fólk sem kemur á sýningarnar. Og ótrúlega töff.“

Verslunin Feather Place. Gógó Starr dreymin og Margrét í atriðafókus. …
Verslunin Feather Place. Gógó Starr dreymin og Margrét í atriðafókus. Ef hægt er að búa það til með fjöðrum, þá er það til í Feather Place.​ mbl.is/Árni Sæberg


Fimm til sex manns koma fram á hverju kvöldi og segir Margrét andrúmsloftið mjög afslappað. „Hver kemur með sitt að borðinu og það er ekki fyrr en rétt fyrir sýningu að farið er að skipuleggja dagskrána. Vilt þú fara fyrst eða á ég að gera það? Þetta eru svona púsluspilssýningar og alveg dásamlegar. Þetta er allt það skemmtilegasta við að koma fram og ekkert af því leiðinlega.“

Tansy sér sjálf um að kynna atriðin og segir þess á milli söguna af Lady Mendl og lífi hennar. „Það er skemmtilegt ritúal í kringum þetta,“ segir Margrét.

Margrét og Gógó gera sig til á pínulitla baðherberginu á …
Margrét og Gógó gera sig til á pínulitla baðherberginu á pínulitla hótelherberginu fyrir Polite Society á Lady Mendl's Tea Salon. Bestu vinatrúnóin verða oft við meiköppspegilinn.​ mbl.is/Árni Sæberg


Nánar er fjallað um ferðalag Margrétar til New York í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Með henni var hópur að heiman sem kynnti sér burlesque-senuna. Og Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, var fluga á vegg. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert