Hús verða ekki rýmd

Krapaflóð féll á fimmtudaginn í síðustu viku.
Krapaflóð féll á fimmtudaginn í síðustu viku. mbl.is/Guðlaugur Albertsson

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir að hús verði ekki rýmd vegna hættu á ofanflóðum á svæðinu, og að ekki sé talin ástæða til að lýsa yfir óvissustigi almannavarna.

Eins og fram kom í færslu Veðurstofunnar fyrr í dag segir að svipaðar veðuraðstæður séu nú uppi og á fimmtudaginn í síðustu viku þegar að krapaflóð féll í Geirseyrargili á Patreksfirði. „Núna virðist vera álíka mikill snjór eða ívið meiri í gilinu, og er ekki hægt að útiloka svipaðan atburð aftur,“ segir í færslunni.

Þórdís Sif var nýkomin af fundi með almannavörnum þegar að mbl.is náði tali af henni. Hún sagði að auknar varúðarráðstafanir verði viðhafðar í kringum gilið en að fólk sé almennt rólegt yfir þessu. 

„Þau verða að heyra í okkur“

Krapaflóð féll á fimmtudaginn í síðustu viku á Patreksfjörð. Bæjarráð Vesturbyggðar skoraði í kjölfarið á auka fjár­fram­lög til of­an­flóðavarna og að allt sé gert til þess að draga úr of­an­flóðahættu á byggðir og fjöl­farna vegi inn­an Vest­ur­byggðar.

Þá var óskað eftir fundi með ofanflóðasjóði, ráðherra umhverfis-, orku- og loflagsmála, innviðaráðherra og forsætisráðherra.

Upplýsingafundur verður haldinn með íbúum og væri æskilegt að vera með fulltrúa ráðuneytanna á svæðinu, að mati bæjarstjórans.

„Þau verða að heyra í okkur til þess að við getum gefið þeim upplýsingar og okkar sýn á málið,“ segir Þórdís.

Mikilvægt að tryggja öryggi

Verið er að teikna upp valkosti fyrir ofanflóðavarnir fyrir Patreksfjörð og Bíldudal. Áætlað er að framkvæmdir á ofanflóðavörnum við Geirseyrargil hefjist á næsta ári og ljúki árið 2028.

Ekki eru mörg hús undir á þessu svæði en að sögn Þórdísar er mikilvægt að tryggja öryggi íbúa og vill sveitarfélagið kanna hvort að hægt sé að flýta framkvæmdunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert