Hraustustu menn tárfelldu

Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri, fékk Akureyrarveikina 1948, þá sautján ára …
Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri, fékk Akureyrarveikina 1948, þá sautján ára gamall. Hann var veikur í mörg ár og þurfti að lifa með gát allt sitt líf. Ásgeir segir Akureyrarveikina hafa haft áhrif á allt líf hans, en ekki til hins verra þegar öllu er á botninn hvolft. mbl.is/Ásdís

Fyrir sjötíu og fimm árum veiktist unglingspiltur hastarlega á Akureyri af veiru sem lagði sjö prósent íbúana, en veikin var síðar kennd við bæinn og nefnd Akureyrarveikin. Af þeim sem veiktust af þessari áður óþekktu veiki, náðu sumir sér aldrei fyllilega. Ásgeir Jóhannesson, nú 91 ára, er einn af þeim. Nú þegar margir upplifa langtímaeinkenni eftir kórónuveiruna er ekki úr vegi að heyra sögu Ásgeirs öllum þessum árum síðar, en Akureyrarveikin litaði allt hans líf.

Svaf ekkert fyrir verkjum

Ásgeir var í þrjá áratugi forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins og athafnamaður með meiru eins og kom í ljós í spjalli okkar yfir kaffisopa og kleinum. Hann er sannkallaður frumkvöðull en Ásgeir átti stóran þátt í að byggja Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð á sínum tíma og var formaður samtakanna fyrstu tuttugu árin en samtökin byggðu einnig 110 íbúðir fyrir eldri borgara, en Ásgeir býr einmitt í einni þeirra í dag. En við byrjum á byrjuninni.

„Ég er fæddur og uppalinn á Húsavík; Norðlendingur í húð og hár. Ég var í Menntaskólanum á Akueyri og byrja þar haustið 1948. Ég var á heimavistinni og var í þriggja manna herbergi með ágætum félögum,“ segir Ásgeir og segist hafa heyrt í byrjun nóvember að lömunarveiki væri að ganga á Akureyri.

„Manni varð um og ó. Innan hálfsmánaðar var leikfimi aflögð en þá var stofnað til gangaslags og þarna var slegist og tekist á. Þann þrettánda nóvember var ég í gangaslag og var eins og slytti á eftir,“ segir hann.

„Við dröttuðumst í bíó um kvöldið en daginn eftir fann ég fyrir óþægilegum einkennum og fleiri nemendur veiktust þá,“ segir Ásgeir og segist hafa ekki liðið mjög illa í byrjun, en þurft að fara margar hæðir niður til að komast á snyrtinguna.

„Það fór fram stærðfræðipróf í bekknum mínum og ég reyndi að leysa það í rúminu. Þá fór ég að fá verk í hægri hendina og þreytu yfir höfðuðið og svo um nóttina voru verkirnir nánast eins og straubolta væri rúllað upp og niður hendina og í öðrum fætinum,“ segir Ásgeir og segist einum eða tveimur dögum síðar hafa lamast að hluta í handleggnum.

„Það lágu veikir nemendur út um allt. Þarna fer ég að verða ansi veikur. Ég svaf ekkert á nóttunni fyrir verkjum. Og ég gat ekki labbað stigana og vinur minn þurfti að ná í skúringafötu og dulu til að setja yfir. Þarna þurfti ég að gera öll mín stykki og vinir mínir að fara niður með á kvöldin. Þetta var aðstaðan,“ segir Ásgeir og segir lækna hafa heimsótt hann og skoðað en lítið eða ekkert getað gert.

„Hraustustu menn gengu tárfellandi um götur Akureyrar vegna vanlíðunar og sálrænnar röskunar. Læknar vissu lítið um hvers konar veikindi voru hér á ferðinni.“ 

Kjarkurinn fór að dvína

Ásgeir lá enn fárveikur í rúminu á heimavistinni um jólin og segist muna eftir því að hafa ekki fengið neinn mat á jóladag því enginn var til að staðar til að sinna honum, en fram að því höfðu tvær vinkonur komið til hans á daginn til að mata hann.

„Þá var ég búinn að liggja í sex vikur. Svo þar sem ég lá í rúminu kom einn vinur til mín og við vorum með smá galskap. Þá fæ ég svona rosalegan hjartslátt. Þá varð ég skelfingu lostinn! Þá var þetta farið að ráðast á taugakerfið og ég er á því að þetta hafi ekki verið afltaugalömun heldur tilfinningataugalömun,“ segir Ásgeir og segir hjartsláttarköstin hafi haldið áfram þar sem hjartslátturinn fór í 200 slög á mínútu.

„Það kom læknir og gaf mér dropa í teskeið og það sló á þetta, en kjarkurinn fór að dvína. Þriðja janúar var ég sendur heim til pabba og mömmu. Vinir mínir þurftu að flytja mig í stórhríð um borð í Esju. Ég sigldi til Húsavíkur,“ segir hann og segist ekki hafa getað gengið og heldur ekki lesið, því augun voru líka sem hálflömuð.

„Þegar ég kem heim fer að draga af mér og á morgnana var hitinn 35 gráður og hjartslátturinn 33 slög á mínútu. Ég er bara að fjara út, en það var ekkert hægt að gera. Á þeim tíma skilst mér að flestir hafi talið, að ég ætti ekki langt líf fyrir höndum. Ég bara lá þarna. Eina nóttina í endanum á mars leið mér svo illa að læknir var sóttur sem gaf mér sprautu til að róa mig. Ég var svo kominn með 39 stiga hita og hafði þá fengið inflúensu sem var að ganga á Húsavík. Ég lá í henni í viku og þá datt niður hitinn, en ekki niður í 35 heldur í 37,“ segir hann og segir móður sína, Sigríður Sigurjónsdóttur, hafa annast hann af einstakri umhyggju.

„Allt í einu var eins og það væri höggvið á veikina. Það er eins og hitinn hafi drepið þessa veiru eða veikindi og mér fór að líða betur, en fram að því gat ég ekki sest upp í rúminu án þess að hjartslátturinn færi upp úr öllu valdi,“ segir Ásgeir og segir að upp frá því hafi hann hægt og bítandi farið að reyna að koma sér á fætur.

„Í september, tæpu ári eftir að ég veiktist, var ég farinn að geta klætt mig. En kjarkurinn var horfinn,“ segir hann og segist hafa verið hræddur við hjartsláttarköstin sem héldu áfram.

Sigraði sjálfan mig

 Við förum að slá botninn í áhugavert samtal en Ásgeir segir að lokum að veikindin hans hafi í raun lagt grunninn að því góða lífi sem hann hefur lifað.

„Ég er mjög sáttur í dag að hafa ekki lokið menntaskólanámi eins og ég ætlaði mér, eins og ég þó var óskaplega sár við guð almáttugan að hafa verið tekinn úr sambandi tímabundið. En mér var beint einhvern veginn vestur til Ólafsvíkur þar sem ég fæ allt annars konar þjálfun og tekst á grundvelli hennar að komast æði langt í störfum og félagsmálum,“ segir Ásgeir en hann kynntist framandi löndum í gegnum störf sín og sat meðal annars á Alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og var umdæmisstjóri Rótarýumdæmisins á Íslandi.

„Og þó ég hafi alltaf þurft að fara með gát, hefur mér tekist að vera leiðandi í samfélaginu,“ segir Ásgeir og segist aldrei hafa náð sér fyllilega en segir að sér líði vel í dag.

„Ég efa að mér hefði fallið í skaut jafn gott fjölskyldulíf og þau fjölbreyttu verkefni sem ég hefi fengist við á síðari hluta ævi minnar ef ég hefði ekki sýkst af Akureyrarveikinni á sínum tíma og hún breytt lífi mínu.“

Ítarlegt viðtal er við Ásgeir í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert