Íslendingar blótuðu í kirkju

Dúkuð borð, þjóðfánar og full trog af því sem Íslendingum …
Dúkuð borð, þjóðfánar og full trog af því sem Íslendingum þykir ýmist skelfilegt súrsað ómeti eða ljúfur boðberi þorrans og ómur löngu horfinna alda. Ljósmynd/Guðmundur Gíslason

„Þetta var alveg stórfínt, við erum reyndar ekki komin upp í alveg sömu mætingu og var fyrir Covid, vorum með 150 manns núna, en eins og þetta var vorum við búin að vinna okkur upp í alveg 200 til 220 í mætingu,“ segir Guðmundur Gíslason, stjórnarmaður í Íslendingafélaginu í Ósló í Noregi, um vel heppnað þorrablót félagsins í gærkvöldi sem verið hefur árviss viðburður um áratuga skeið en félagið fagnar 100 ára afmæli sínu síðar á þessu ári.

Guðmundur, sem margir kannast betur við undir heitinu Gummi Gísla einu og sér, flutti til Noregs árið 2002 og hefur verið í kringum framkvæmd blótsins allar götur síðan 2004 og meðal annars haft með höndum að fá íslenskt tónlistarfólk til að halda í austurveg, eins og Snorri nefndi Noreg gjarnan.

Hefur Guðmundur, sem búsettur er á eynni Nøtterøy, nágrannasveitarfélagi Tønsberg, suður af Ósló, enda marga fjöruna sopið á þeim vettvangi þar sem hann gat sér gott orð á Íslandi sem umboðsmaður hljómsveitanna Síðan skein sól, Skítamórals og Buttercup árabilið 1990 til 2002 og gekk um tíma undir viðurnefninu „umboðsmaður Íslands“.

Tók sjálfur lagið með sveitinni

„Fólk var að kaupa miða alveg fram á síðasta dag,“ segir Guðmundur þegar talinu víkur aftur að sjálfu viðtalsefninu, blótinu í gær sem haldið var í gamalli kirkju, Sagene Festivitetshus, þó löngu afhelgaðri ella hefði hún væntanlega sokkið, eins og kirkjan í Hruna í þjóðsögunni, undan hrútspungum, íslensku brennivíni og dunandi dansi.

Kirfilega merktur starfsmaður blótsins sinnir lokaundirbúningi og búið að stilla …
Kirfilega merktur starfsmaður blótsins sinnir lokaundirbúningi og búið að stilla upp fyrir hljómsveitina. Ljósmynd/Guðmundur Gíslason

„Þetta er eitt af stærri blótum Íslendingafélaga á Norðurlöndum, ég held að blótið í Danmörku eitt sé fjölsóttara,“ segir Guðmundur sem í ár réð norska blúshljómsveit, Andreas Floer Band, til að halda þrýstingnum á dansgólfinu en hún leit dagsins ljós í Vestfold Bluesklubb árið 2016 og hefur á að skipa Floer þeim er nafnið gefur til kynna auk feðganna Espen og Emil Edvardsen og Kenneth Granly.

Rúgbrauðið, rófustappan og kartöflurnar eru af norskum uppruna. Rúgbrauð gleymdist …
Rúgbrauðið, rófustappan og kartöflurnar eru af norskum uppruna. Rúgbrauð gleymdist að panta frá landi elds og ísa svo Hrafnhildur Brynjarsdóttir í Jessheim tók að sér bakstur og fór föstudagurinn í það mál. Ljósmynd/Guðmundur Gíslason

„Þeir voru náttúrulega ekki að spila blús heldur tóku fyrir öllu dansvænni efnisskrá,“ tekur Guðmundur fram og segir sveitina hafa átt vel upp á pallborðið hjá gestum. „Ég tók nú eitt lag með þeim sem ég samdi sjálfur þegar ég var með Skítamóral „on the road“ í gamla daga,“ segir hann frá. Á fyrri blótum hefur Guðmundur þó gjarnan flutt stór nöfn ofan af Íslandi og má þar til dæmis taka Helga Björnsson, Vini vors og blóma, Karl Örvarsson, Skítamóral, Sigríði Beinteinsdóttur og Bryndísi Ásmundsdóttur.

120 kíló af þorramat

Þorramaturinn var allur keyptur hjá Kjarnafæði-Norðlenska, „Icelandair flaug með matinn hingað út á fimmtudaginn, þetta voru 120 kíló en kartöflur, rófustöppu og hvítlaukssósuna gerum við hérna, fólk í félaginu stendur í því og reyndar var rúgbrauðið bakað hérna líka, það var nú bara vegna þess að það gleymdist að panta það en það var ein hérna, hún Hrafnhildur Brynjarsdóttir í Jessheim, sem fór bara í það mál á föstudaginn,“ segir Guðmundur af þorramatnum.

Matarsóun á Vesturlöndum hefur verið áberandi í umræðu síðustu ára en Íslendingafélagið í Ósló lætur ekki hanka sig á slíkri handvömm heldur eru allir afgangar gefnir íslenskum eldri borgurum í höfuðborginni.

Hluti blússveitarinnar Andreas Floer Band sem lék þó ekki eintóman …
Hluti blússveitarinnar Andreas Floer Band sem lék þó ekki eintóman blús á blótinu en gerðist öllu dansvænni. Ljósmynd/Guðmundur Gíslason

Tiltölulega nýr sendiherra Íslands í Ósló, Högni Kristjánsson, lét sig ekki vanta og flutti Íslendingum hátíðarávarp sitt á blótinu auk þess sem sendiráðið lagði til tólf flöskur af íslensku brennivíni en fyrir því hefur verið hefð. Fyrirkomulagið hjá Oslo Festivitetshus er með því móti að leigjendur hússins geta sjálfir rekið barinn gegn því að framvísa vínveitingaleyfi og varð Íslendingafélagið sér úti um slíkt leyfi í einn sólarhring til að mega sjálft annast sölu göróttra drykkja á blótinu.

Þar með þurfti að leigja inn viðurkennt öryggisfyrirtæki til að annast dyravörslu og varð þar fyrir valinu Protect Vakthold og Sikkerhet Sande AS en þar starfa reyndar tveir Íslendingar við dyravörslu og gættu þeir einmitt öryggis landa sinna í gærkvöldi.

Helgarferð í höfuðstaðinn

Alla jafna hefur blót félagsins hafist klukkan 19 og staðið til 02 um nóttina en að þessu sinni var það frá 18 til 01. Happdrætti var að sjálfsögðu á sínum stað og meðal vinninga var vikuleiga á bíl frá bílaleigu Akureyrar, inneign upp í flugmiða hjá Icelandair, matarkörfur og fleira.

Andreas Floer Band í öllu sínu veldi á sviðinu á …
Andreas Floer Band í öllu sínu veldi á sviðinu á íslenska þorrablótinu í Ósló í gærkvöldi. Ljósmynd/Guðmundur Gíslason

Að síðustu nefnir Guðmundur að gaman hafi verið að sjá Íslendinga frá byggðum landsins fjarri Ósló leggja leið sína í höfuðstaðinn. Íslendingar hafi komið frá Bergen, Stavanger og fleiri stöðum og gert sér helgarferð í höfuðstaðinn. „Af þessu blóti fer mjög gott orð,“ segir Guðmundur Gíslason, stjórnarmaður í Íslendingafélaginu í Ósló og „umboðsmaður Íslands“ á öldinni sem leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert