Dæmdur í 6 mánaða fangelsi að sér fjarstöddum

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður var í síðasta mánuði dæmdur í sex mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfellda líkamsárás árið 2020. Maðurinn mætti ekki við þinghaldið, en ákæran var birt í Lögbirtingarblaðinu í nóvember þar sem ekki var vitað um dvalarstað árásarmannsins. Þá var ljóst að hann dvaldi ekki á skráðu heimili.

Samkvæmt ákæru málsins er manninum gert að hafa veist að öðrum manni og slegið hann ítrekað með höggum og óþekktu barefli í líkamann, m.a. í höfuð, handlegg og fótlegg. Nefbrotnaði sá sem fyrir árásinni varð og skekktist nef hans mikið. Þá náðu brot upp í höfuðkúpu og hlaut hann mikla maráverka á höfuðkúpunni. Einnig hlaut hann brot á hálslið, hryggjatind og sköflungi auk bólgu og mars víða.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði sá sem fyrir árásinni varð að hann hefði verið sleginn með járnröri, en árásarmaðurinn hafnaði því við skýrslutöku hjá lögreglu. Réttarlæknir sagði í matsgerð sinni að áverkarnir væru hins vegar líkt og greint var frá í ákæru, en járnrörið fannst hins vegar aldrei.

Þá sagðist árásarmaðurinn einnig hafa verið að verja sig eftir að hinn maðurinn hafi hótað að drepa sig. Dómurinn kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að áverkar sem maðurinn veitti hinum hafi verið það útbreiddir og alvarlegir að því er hafnað að árásarmaðurinn hafi verið að verja sig, heldur sé skýring þess sem fyrir árásinni varð líklegri.

Hafði sá lýst atvikum þannig að árásarmaðurinn hefði veist að honum eftir samtal þeirra þar sem hann ásakaði árásarmanninn um að hafa krotað „FUCK OF“ á herbergisdyr sínar. Hafi hann í framhaldinu ráðist að sér með höggum, bæði hnefa og járnröri.

Þar sem árásarmaðurinn var ekki viðstaddur þinghaldið og hafði ekki boðað forföll var málið dæmt að honum fjarstöddum. Var hann fundinn sekur um árásina og dæmdur til sex mánaða fangelsis og til að greiða manninum sem hann réðst að 1,5 milljónir og tæplega eina milljón í máls- og sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert