800 farþegar flýttu för

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir aðstæður félagsins vera allt aðrar vegna aflýsinganna nú en þegar félagið þurfti að takast á við raskanir vegna lokunar Reykjanesbrautar rétt fyrir jól.

Icelandair varð fyrir miklu tjóni vegna lokunar Reykjanesbrautar í desember. Tjóni sem félagið hefur metið á um einn milljarð króna.

Brotabrot á við það sem gerðist fyrir jól

Öllu flugi með flug­vél­um félagsins frá Norður-Am­er­íku til Kefla­vík­ur í gær var af­lýst vegna veðurs. Þá var sömuleiðis öllu flugi til Evr­ópu af­lýst í morgun sem og kom­um frá Evr­ópu seinnipart­inn í dag.

Bogi segir að samband hafi verið haft við farþega á sunnudaginn og þeim boðið að flýta för.

„Sem dæmi voru 800 farþegar sem flýttu för og fóru í gær. Þetta er minna umfangs og við höfðum fyrirvara á núna. Stærðargráðan núna er brotabrot á við það sem gerðist fyrir jól,“ segir Bogi.

Óvænt ástand og á versta tíma

„Þetta átti sér stað á versta tíma í desember. Það var mjög stór áætlun í gangi. Þetta var rétt fyrir jól og allar vélar voru fullar hjá okkur bæði dagana fyrir og eftir. Þá voru allar vélar fullar hjá öðrum flugfélögum sem við vinnum oft með og þannig var erfiðara að „rerouta“ farþegum.

Þetta ástand stóð yfir í tvo daga og kom algjörlega óvænt þannig að við höfðum ekki farið í neinar fyrirbyggjandi aðgerðir.

Ef við hefðum lent í því sama og við lentum í fyrir jól en bara aðeins fyrr, segjum hálfum mánuði fyrr, hefði tjónið orðið miklu minna vegna þess hvernig flugáætlunin var og bókanir á þeim tíma,“ segir Bogi enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert