Ósáttur við „pillur“ til stjórnvalda

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innviðaráðherra segir vonbrigði að það þurfi enn og aftur að hækka stýrivextina, að mati Seðlabanka Íslands.

Hann hefur skilning á ákvörðuninni en kveðst þó ekki alls kostar sammála framsetningunni á rökstuðningnum að baki hennar og vísar þá m.a. í „pillurnar“ til stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. 

„Seðlabankinn hefur ekki mörg úrræði, hann er búinn að spila út þónokkrum og þau hafa sannarlega haft áhrif en það eru vonbrigði að við skulum enn vera í þessari stöðu.

Við sjáum að einkaneyslan er mjög há og við sjáum vísbendingar um að það geti allir gert betur og þá er ég nú að vísa til þeirra sem eru að hækka vörur og þjónustu því að við munum ekkert komast út úr þessum vítahring nema að allir leggi sitt af mörkum.

Auðvitað geta þeir gert það mest, sem eru að verðleggja bæði vörur og þjónustu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, en bætir þó við að stjórnvöld geti líka gert betur.

Óvissa í kringum okkur

„Það sem að viðskiptaráðherrann er að gera er að efna til víðtækrar hvatningar til þess að fylgjast með betur á matvörumarkaði, með bönkunum og með fleiri þáttum er lúta að neyslunni. Ég held að það skipti máli.“

Hann segir stöðuna víðsjárverða og því skilji hann ákvörðun Seðlabankans. Stríð sé í Evrópu og mikil óvissa ríki í kringum okkur. „Við sjáum það í öðrum Evrópulöndum, þar eru menn að draga saman seglin þar sem vel gengur.“

Aðhald fjárlaga minna

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands hef­ur ákveðið að hækka vexti bank­ans um 0,5 pró­sentu­stig. Í tilkynningu frá bankanum fyrr í dag kom fram að verðbólgu­horf­ur hefðu versnað frá síðasta fundi nefnd­ar­inn­ar.

„Lak­ari horf­ur skýr­ast einkum af því að ný­gerðir kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði fela í sér tölu­vert meiri launa­hækk­an­ir en þá var gert ráð fyr­ir. Einnig hef­ur gengi krón­unn­ar lækkað og út­lit er fyr­ir meiri fram­leiðslu­spennu á spá­tím­an­um. Við þetta bæt­ist að út­lit er fyr­ir að aðhald fjár­laga verði minna en gert var ráð fyr­ir í nóv­em­ber­spá bank­ans þrátt fyr­ir að dragi úr halla­rekstri rík­is­sjóðs í ár,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Ég held að það sé óþarfi að vera að senda svona pillur inn í aðila vinnkumarkaðarins eða á stjórnvöld,“ segir Sigurður Ingi sem kveðst ekki alls kostar sáttur við rökstuðning bankans eins og hann birtist í tilkynningunni.

„Ég held að við höfum til dæmis í fjárlagagerðinni verið að reyna að sýna eins mikið aðhald og frekast var unnt. Auðvitað getur Seðlabankinn haft þá skoðun að það hefði mátt vera meira en við þurfum líka að taka mið af þeim aðstæðum sem uppi eru eftir Covid og fjármagna nauðsynlega þjónustu ríkisins,“ bætir hann við.

Öll að líta í eigin barm

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ að honum þætti eðlilegt ef stjórnvöld myndu bregðast við hækkuninni m.a. með meiri stuðningi varðandi húsnæðismál. Lægst launaði hópur samfélagsins væri ekki sá sem væri að knýja verðbólguna áfram með eyðslu.

„Það liggur alveg í augum uppi að sá hópur sem að hefur minnst á milli handanna er ekki drifkraftur neyslunnar en þetta gildir engu að síður um okkur öll. Við höfum auðvitað verið að horfa í þetta, bæði í ákvörðun um hækkun húsnæðisbóta og hækkun vaxtabóta. Við hækkuðum húsnæðisbæturnar um tæp 24% á síðasta ári og stækkuðum þann hóp sem nýtur þeirra bóta.

Það sama gilti um vaxtabæturnar, þar erum við einmitt að reyna að grípa utan um þann hóp. Til þess að stöðva þennan vítahring og stöðva verðbólguna þá held ég að við verðum öll að vera tilbúin að líta í eigin barm og reyna að draga úr neyslunni. Spara meira,“ segir Sigurður Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert