Erfitt er að framkvæma undanþágur frá verkfalli eldsneytisbílstjóra í nokkrum tilvikum, að sögn Hinriks Arnar Bjarnasonar, framkvæmdastjóra N1.
„Fjöldamargir af viðskiptavinum okkar eru með undanþágu frá Eflingu. Það er ljóst hvernig á að sinna þeim sem eru með tanka við starfsstöðvarnar sínar. En síðan eru aðrir, sem eru með undanþágu, sem taka alla jafna út á þjónustustöðvunum okkar,“ segir hann.
„Það á eftir að skýra línurnar um hvernig við getum þjónustað þá sem hafa fengið undanþágu frá verkfalli ef tankarnir okkar eru tómir.“
Efling starfrækir undanþágunefnd, sem samþykkir eða hafnar undanþágum frá verkfalli.
Lögð hefur verið áhersla á að veita mikilvægum stofnunum undanþágur, svo sem lögreglu, slökkviliðinu, Vegagerðinni, Strætó og fleirum.