Viðræður ekki hafnar og hlé til klukkan 20

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilunni.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formlegar kjaraviðræður milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins eru ekki hafnar. Líklegt er að það skýrist í kvöld hvort grundvöllur er fyrir efnislegum viðræðum. Þetta segir Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu SA og Eflingar.

„Við höfum verið að fóta okkur á því hvernig við gætum hugsanlega komið slíkum viðræðum í gang og hvort hægt sé að finna þætti sem mögulega er hægt að hnika svo menn geti náð saman,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is

„Við erum enn þá ekki komin í eiginlegar kjarasamningsviðræður og ég veit ekki hvort við komumst þangað,“ sagði hann í Karphúsinu, laust eftir fimm í dag. Viðræðum verður fram haldið klukkan 20 í kvöld, eftir fundarhlé og þá reynt að finna grundvöll formlegra viðræðna.

„Við munum halda því áfram í kvöld. Ég geri ráð fyrir því að það muni koma í ljós á næstu klukkustundum hvort eiginlegar efnislegar kjarasamningsviðræður fari í gang eða ekki.“

Verkfall olíubílstjóra í Eflingu hófst klukkan tólf í dag og bítur það fljótt, líkt og mbl.is hefur fjallað um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka