Stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, segir að fyrirhuguð löggjöf ESB um losunarheimildir á flugferðir sé stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES samningsins. Utanríkisþjónustan hafi farið í fordæmalaust átak til að reyna að hafa áhrif á löggjöf ESB. 

Sjálf hefur Þórdís talað við á þriðja tug utanríkisráðherra annarra landa vegna málsins en embættismenn hafa í heild haldið yfir 100 fundi með ólíkum aðilum innan ESB vegna málsins. 

Hún segir það aldrei verða samþykkt að samkeppnishæfni Íslands muni skaðaðst líkt og núverandi löggjöf sem samþykkt hefur verið í ESB ber með sér.  

Enginn sem mótmælir áhrifum á Ísland

„Það er enginn sem mótmælir lengur áhrifunum á Ísland sem er byggt á þeim gögnum sem við höfum lagt fram," segir Þórdís. Málið er afar stórt  í sniðum þegar tekið er tillit til hagsmuna Íslands. Ekki síst fyrir tvær af þremur stærstu útflutningsstoðum Íslands. Fiskútfluting og ferðamennsku. 

Lagagerðin hefur ekki tekið gildi þó efnislega liggi innihald löggjafarinnar fyrir. 

Þórdís bendir á að að áður hafi verið tekið tillit til Íslands í upptökuferli löggjafar EES samningsins hérlendis. Annars vegar í tengslum við orkunýtni bygginga og hins vegar varðandi kröfur í innanlandsflugi. Í báðum þeim tilfellum var fallist á aðlögun við upptöku í íslensk lög.

Flókið að fá undanþágu í lagagerðinni

Hins vegar bendir Þórdís á aukið flækjustig þessa máls því losunarskattur á flug er hluti af mun stærri aðgerðarpakka ESB sem gerir allar undanþágubeiðnir erfiðar viðureignar á þessu stigi máls. Víða um álfuna eru lönd sem óska undanþágubeiðna frá lagagerðinni á ólíkum forsendum.

Til­lög­ur um los­un­ar­heim­ild­ir á flug og krafa um vist­vænt eldsneyti á flug­vél­ar eru hluti af mun stærri aðgerðapakka ESB sem lagður var fram í júlí árið 2021 og ber heitið „Fit for 55.“  

Um er að ræða skír­skot­un í mark­mið ESB um að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda um að a.m.k 55% árið 2030.  Tveir liðir snúa að flugrekstri. Ann­ars veg­ar að flug­vél­ar taki upp um­hverf­i­s­vænna eldsneyti með íblönd­un­ar­efn­um og hins veg­ar að tekn­ar verði upp los­un­ar­heim­ild­ir eða los­un­ar­skatt­ur þar sem skatt­greiðslur vaxa í sam­ræmi við lengd flug­leggs­ins. Los­un­ar­skatt­ur­inn mun verða sett­ur á í skref­um og kom­in í fulla virkni árið 2027.

Mál af annarri stærðargráðu en áður

Áætlað er að óbreyttu að áhrifa laganna gæti strax á næsta ári með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir fluglegginn til Íslands.

Að óbreyttu mun millilandaflug hækka í verði.
Að óbreyttu mun millilandaflug hækka í verði. Samsett mynd

„Við tökum þetta fasa fyrir fasa og við erum að gera allt hvað við getum til að ná fram breytingum og verðum í raun að vona það besta. Ef það tekst ekki þá er í raun ekki tímabært að fabúlera um það hvað gerist næst,“ segir Þórdís Kolbrún.

Verði löggjöfin tekin upp óbreytt eru fyrirséð áhrif á tvær af þremur helstu útflutningsstoðum Íslands, ferðamennsku og fiskútflutning. Er þá ótalinn allur annar flutningur til og frá landinu. 

Ekki tímabært að tala um að hafna upptöku 

Í stjórnkerfinu hafa jafnvel heyrst þær raddir að til greina komi að hafna þessu hluta löggjafarinnar alfarið. Þórdís Kolbrún segir þó að slíkt tal sé ekki tímabært.

„Það er ekki tímabært að máta sig við slíkar sviðsmyndir á meðan við erum á þessum stað í verkefninu. Ég er hins vegar sammála því að hér er um að ræða raunverulega og risavaxna hagsmuni. Er það ólíkt öðrum málum sem upp hafa komið þar sem talað hefur verið um að sleppa því að innleiða hluti og setja EES samninginn í einhvers konar uppnám með tilheyrandi óvissu,“ segir Þórdís Kolbrún.

Málið hefur þegar fengið efnislega meðferð á Evrópuþinginu.
Málið hefur þegar fengið efnislega meðferð á Evrópuþinginu. AFP

Hún segir skýrt að markmið Íslands séu að minnka losun í flugi. Hins vegar eru engir aðrir valkostir á Íslandi að fara á milli landa ólíkt því sem gerist í Evrópu.

Kemur ekki til greina að skaða samkeppnishæfni

Yfirlýst markmið löggjafarinnar eru að þvinga upptöku umhverfisvænna flugvélaeldsneyti en nú er í notkun. Framleiðslugetan er hins vegar langt frá því að geta annað eftirspurn og eldsneytið þykir dýrt samanborið við annars konar flugvélaeldsneyti. Þórdís segir Ísland hafi þó fengið í gegn niðurgreiðslu ESB á íblönduðu eldsneyti. Það sé hins vegar ekki nægjanleg aðgerð. 

„Hvenær framboðið verður til staðar liggur ekki fyrir. Það kemur því ekki til greina fyrir okkur að stórskaða samkeppnishæfni Íslands og tengingu við umheiminn í einhverju millibilsástandi þangað til það gerist," segir Þórdís Kolbrún.

Hún bendir á að vel sé hægt að ímynda sér að óbreyttu muni flugtengingar t.a.m. færast til Bretlands með tilheyrandi einangrun fyrir landið. Eins sé hætt við því að áralöng uppbygging á Keflavíkurflugvelli verði hent fyrir róða.

„Við erum háð útlöndum að öllu leyti. Byggjum velsæld okkar á því. Við erum með fjölda geira á borð við heilbrigðiskerfi sem þarf á flutningi fólks að halda. Það er bara eitt dæmi. Þessar miklu tengingar við Íslands grundvallaratriði fyrir Ísland,“ segir Þórdís Kolbrún.

Ranglæti að þurfa að gera meira en aðrir 

Hún segir kröfur Íslands ekki ósanngjarnar og Ísland vilji leggja sitt af mörkum í loftalagsmálum. Hins vegar er uppbygging losunarskattsins þannig að skatturinn leggst á hvern farinn kílómetra. Það skaðar samkeppnisstöðu Íslands umfram aðrar þjóðir vegna landfræðilegrar legu.

„Við erum ekki að biðja um undanþágur umfram aðra. Við erum bara að benda á það að ranglæti sé í því að þurfa að gera meira en aðrar þjóðir sökum þess að flugleiðir eru langar auk þess sem við eigum enga aðra valkosti til flutninga,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert