Óánægja með staðsetningu grenndargáma

Gámarnir eru nálægt Byggðasafninu í Görðum.
Gámarnir eru nálægt Byggðasafninu í Görðum. Ljósmynd/Aðsend

Grenndarstöðvar hafa verið settar upp á Akranesi undanfarið og meðal annars hefur einni verið komið fyrir á svæði Byggðasafnsins í Görðum.

Sigurður Páll Harðarson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akraneskaupstaðar, segir að bærinn sé að fóta sig áfram með lausa gáma hér og þar í bænum.

„Við erum að bjóða út sorpþjónustu hér í bænum og hluti af því dæmi er að ákveðnir flokkar fari inn á grenndarstöðvar. Það verður fjórflokkun á heimilum; lífrænt, pappi, plast og óflokkað sorp. Svo verður gler, málmar, textíl og hugsanlega eitthvað meira á þessum grenndarstöðvum.

Við erum í raun bara að gera prufur með svona lausa gáma og sjá hvernig gengur,“ segir Sigurður.

Blámerkta svæðið markar staðsetningu grenndargáma við Byggðasafnið í Görðum. Rauðmerkta …
Blámerkta svæðið markar staðsetningu grenndargáma við Byggðasafnið í Görðum. Rauðmerkta svæðið markar staðsetningu grenndargáma við Jörundarholt samkvæmt niðurstöðu á fundi skipulags- og umhverfisráðs.

Óánægja með staðsetningu

Nokkur óánægja hefur verið með staðsetninguna og finnst einhverjum til dæmis ógeðfellt hvernig gámarnir blasa við öllum þeim ferðamönnum sem sækja safnið heim.

Jón Allansson, deildarstjóri á Byggðasafninu í Görðum segist ekki neita því að fólk sé óánægt með staðsetninguna.

„Við hér á safninu vorum frekar óánægð með þessa staðsetningu og áttum fund með sviðsstjóra skipulagssviðs. Það var góður fundur og ég veit að sviðsstjórinn er allur að vilja gerður. Svo á eftir að koma í ljós hvernig tekið verður á málinu.“

Ræddu aðrar staðsetningar

Sigurður segist hafa vitað af óánægju á Byggðasafninu.

„Við áttum fund með starfsfólki um daginn þar sem meðal annars voru ræddar aðrar staðsetningar þar, sem yrði meiri sátt um,“ segir Sigurður.

Hvað ásýnd á og við gámana varðar segir hann að settar verði skjólgirðingar í kringum gámana.

Grenndargámar við Byggðasafnið í Görðum.
Grenndargámar við Byggðasafnið í Görðum. Ljósmynd/Aðsend

„Það stendur til að gera gerði með skjólgirðingum og slíku þannig að þetta líti betur út en við stefnum á að það verði ekki meira en 500 metrar á milli grenndarstöðva þannig að þetta gangi upp.

Þá munum við einnig leggja á við verktakann mikla áherslu að það verði snyrtilegt í kringum grenndarstöðvarnar.“

Ákveðið að bíða með Jörundarholt

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs í október síðastliðinn var ákveðið að grenndargámum yrði meðal annars komið fyrir í Jörundarholti. Sigurður segir að ákveðið hafi verið að bíða með Jörundarholt og prófa þessa staðsetningu frekar þar sem um sé að ræða stofnanalóð í eigu bæjarins.

Aðspurður segist Sigurður ekki þora að fara með hvort mótmæli íbúa við Jörundarholt hafi ráðið för í þeirri ákvörðun.

„Það voru einhver mótmæli en ég held að þau hafi ekki verið víðtæk. Sá starfsmaður sem var með málið á þeim tíma er ekki lengur hér. Ég get ekkert sagt til um hvort þau hafi haft áhrif á staðsetninguna þar sem ég veit ekki nákvæmlega hvernig samskiptin voru,“ segir Sigurður og heldur áfram.

„Það er hrein íbúðabyggð á þessu svæði og við Jörundarholt eru tvö bílaplön. Gámarnir voru hugsaðir við endann á einu planinu. Svo á bara eftir að koma í ljós hvort það verður þannig í framtíðinni eða ekki. Eins og ég segi, við erum bara rétt að byrja að fóta okkur í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert