Andlát: Jóhann Pálsson

Jóhann Pálsson, fv. garðyrkjustjóri Reykjavíkur.
Jóhann Pálsson, fv. garðyrkjustjóri Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Jóhann Pálsson, fv. garðyrkjustjóri Reykjavíkur, lést á Landakotsspítala föstudaginn 3. mars síðastliðinn, á 92. aldursári.

Jóhann fæddist í Reykjavík 21. júlí 1931, yngstur í hópi átta barna þeirra Páls Magnússonar járnsmiðs og Guðfinnu Einarsdóttur húsfreyju.

Jóhann var í Landakotsskóla og Gagnfræðaskóla Reykjavíkur, hóf leiklistarnám í fyrsta árgangi Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1950-52 og nam við Kungliga Dramatiska Teaterns Elevskola veturinn 1953-54. Hann var síðan leikari, lengst af við Þjóðleikhúsið, en einnig hjá Leikfélagi Reykjavíkur og víðar til 1967.

Jóhann lauk prófi frá Loftskeytaskólanum 1959 og var loftskeytamaður á millilandaskipum í nokkur sumur. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1969 og BS-prófi í líffræði frá HÍ 1972, stundaði nám í grasafræði við Háskólann í Uppsölum 1973-79 og var ráðinn forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri árið 1978.

Jóhann varð garðyrkjustjóri Reykjavíkur árið 1985. Því starfi sinnti hann til 2001 er hann hætti fyrir aldurs sakir.

Í afmælisgrein í Morgunblaðinu, er Jóhann varð 85 ára, sagði hann starf garðyrkjustjóra hafa verið einstaklega gefandi. Fyrstu stóru verkefnin voru uppbyggingin í Laugardal, m.a. Húsdýragarðurinn, Fjölskyldugarðurinn og stækkun Grasagarðsins. Lokaverkefnið í hans umsjá hjá Garðyrkjudeildinni var svo gerð baðstrandarinnar í Nauthólsvík.

Eftirlifandi eiginkona Jóhanns er Hrafnhildur Kristín Jónsdóttir þýðandi, f. 1935. Dóttir þeirra er Hrefna Kristín líffræðingur, f. 1974, en maður hennar er Kristinn Hauksson lögfræðingur. Dætur þeirra eru Hrafnhildur Kristín, f. 2002, og Hera Rún, f. 2011.

Útför Jóhanns fer fram frá Grafarvogskirkju á morgun, fimmtudag, kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert