Eigum að halda í þekkingu sem aflað er á Íslandi

Áslaug Arna á blaðamannafundinum.
Áslaug Arna á blaðamannafundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem skiptir mestu máli er að eiga fólk til að vaxa út úr þeim vanda sem atvinnulífið á við að etja,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla, iðnaðar og nýsköpunarráðherra að loknum fundi um breytta tilhögun varðandi útlendinga utan EES.

Hún segir að þarna sé verið að auðvelda sérfræðingum sem atvinnulífið þarf á að halda að starfa á Íslandi. „Þarna getur fólk tekið fjölskylduna með sér, verið sjálfstæðara og jafnvel verið sjálfstæðir atvinnurekendur með nýsköpunarfyrirtæki,“ segir Áslaug Arna.

Kerfið einfaldara 

Þá bendir hún á að með því að gera umsóknarferli rafrænt skapist tækifæri. „Þannig geta fyrirtæki komið hingað og vaxið hér á landi í stað þess að fólk flytji til annarra landa. Við höfum séð að ef kerfið er of flókið þá leitar fólk eitthvað annað,“ segir Áslaug Arna.

Hún segir að með þessu aukist samkeppnishæfni Íslands. Þá bendir hún að nemendur sem ljúka námi við Háskóla Íslands hafi til þessa einungis fengið 6 mánuði til þess að sækja sér atvinnu að námi loknu.

Fá þrjú ár til að afla sér atvinnu

„Við höfum heyrt mörg dæmi þess að nemendur sem klára nám á kostnað íslenskra skattgreiðenda fari af landi brott því kerfið býður það ekki velkomið. Við eigum að halda í þessa þekkingu alveg eins og erlendis er reynt að halda í þá þekkingu sem Íslendingar afla,“ segir Áslaug.

Hún segir að Kanada og Finnland séu ákveðnar fyrirmyndir í þessum efnum. „Þegar við lengjum þetta úr 6 mánuðum í þrjú ár þá stöndum við fremst allra og jafnfætis á Kanada í þessum efnum,“ segir Áslaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert