„Það er ugla í hlöðunni!“

Uglan, tignarleg í hlöðunni.
Uglan, tignarleg í hlöðunni. Ljósmynd/Julien Jérome Leclercq.

Áhugaljósmyndarinn Julien Jérome Leclercq datt í lukkupottinn fyrir skömmu þegar hann náði fallegum myndum af branduglu skammt frá Hofsósi.

Myndirnar tók hann inni í hlöðu á sveitabænum Hrauni við Sléttuhlíðarvatn þar sem Leclercq starfar. Hann er belgískur og hefur búið hérlendis í fimm ár. Fljótlega eftir komuna hingað fékk hann mikinn áhuga á ljósmyndun og hefur allar götur síðan reynt að fanga á ljósmynd dýr úti í villtri náttúrunni, þar á meðal refi, lunda og krumma.

Ný linsa kom að góðum notum

Í byrjun síðustu viku eignaðist hann nýja linsu, sem hann vonaðist til að gæti hjálpað sér við að ná enn betri myndum. Hvorki gekk þó né rak til að byrja með og kvartaði hann sáran yfir því að engin villt dýr væri lengur að finna úti í náttúrunni sem hann gæti myndað.

Það átti eftir að breytast því á sunnudagskvöld hringdi samstarfsmaður hans í hann og sagði: „Julian, þú átt ekki eftir að trúa mér. Það er ugla í hlöðunni! Þetta er draumur orðinn að veruleika“.

Leclercq þurfti að „hræða hana örlítið“ til að ná góðum …
Leclercq þurfti að „hræða hana örlítið“ til að ná góðum myndum við rétt birtustig Ljósmynd/Julien Jérome Leclercq.

Leclercq beið ekki boðanna og dreif sig út í hlöðu með myndavélina sína og nýju linsuna meðferðis. Hann kom auga á tígullegan fuglinn en áttaði sig fljótt á því að það var of dimmt inni til að ná almennilegum myndum. Hann ákvað því að bíða til morguns þegar birtan var orðin betri, smellti af honum myndum og opnaði síðan allt upp á gátt til að hleypa uglunni út úr hlöðunni.

Þurfti að hræða hana

Spurður nánar um hvernig gekk að fanga ugluna á ljósmynd segir hann að hún hafi til að byrja með haldið sig í skugganum. Þurfti hann því að „hræða hana örlítið“ til að ná góðum myndum af henni við rétt birtustig. „Ég er mjög ánægður með útkomuna. Ég hefði ekki getað búist við því betra,“ segir Leclercq, sem ætlar að deila afrakstrinum á samfélagsmiðlum.

Vegna þess hve uglur eru sjaldgæfar reiknar hann ekki með því að ná aftur myndum sem þessum. Hann hefur einu sinni áður séð uglu á Íslandi, eða í Dalabyggð þegar eins slík flaug fyrir ofan hann og hvarf síðan sjónum.

Ljósmynd/Julien Jérome Leclercq.

Eru þetta bestu myndir sem þú hefur tekið á Íslandi?

Já, þetta eru bestu myndirnar vegna þess að á þessum fimm árum eru tækin sem ég nota orðin betri, bæði myndavélin og linsan. Ég er líka komin með betri tengsl við aðra ljósmyndara, þannig að tæknin mín er sömuleiðis orðin betri sem og úrvinnslan. Það er gott að ég tók myndirnar af uglunni núna en ekki fyrir fimm árum því þá hefði ég aldrei getað tekið þær,“ segir Julien Jérome Leclercq.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert