Svíkur kosningaloforð og heimilar olíuleit

Leyfið var veitt í dag.
Leyfið var veitt í dag. AFP/Mandel Ngan

Ríkisstjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta hefur samþykkt að gefa heimild fyrir olíuleit á svæði í ríkiseigu í Alaska en í framboðsherferð sinni til forseta árið 2020 lofaði Biden að hann myndi ekki samþykkja slík leyfi.

Í dag veitti innviðaráðuneyti Bandaríkjanna olíurisanum ConocoPhillips heimild til þess að bora eftir olíu á þremur mismunandi stöðum á jarðolíubirgðasvæði þjóðarinnar (e. National Petrolium Reserve) á Willow-svæðinu í Alaska.

Þegar Biden var í framboði til forseta lofaði hann að fleiri heimildir yrðu ekki veittar til olíuleitar á svæðum í ríkiseign og á síðustu misserum hafa umhverfisverndarsinnar og ýmsir forsvarsmenn frumbyggja á svæðinu mótmælt því að þessi ákvörðun yrði tekin.

Ríkisstjórn Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, samþykkti þessar aðgerðir á lokaspretti kjörtímabils síns en dómari vísaði málinu til frekari skoðunar.

„Kolefnissprengja“

„Það er of langt liðið á loftslagskrísuna til þess að samþykkja gríðarstórar olíu- og bensínáætlanir sem brjóta beint í bága við hið nýja hreina efnahagskerfi sem ríkisstjórn Bidens skuldbatt sig við að efla,“ segir Abigail Dillen, formaður umhverfisverndarsamtakanna Earthjustice, í yfirlýsingu og bætir við að Biden sé með þessari löggjöf að fara gegn eigin loftslagsmarkmiðum.

Hitastig í ríkinu hafa hækkað hraðar en annarsstaðar í Bandaríkjunum og ýmsir umhverfissinnar hafa varað við því að frekari olíuvinnsla á svæðinu muni aðeins flýta fyrir loftslagsbreytingum.

Umhverfisverndarsamtökin Greenpeace hafa kallað áætlanirnar „kolefnissprengju“.

Á vefsíðunni Change.org hefur rúmlega þremur milljónum undirskrifta verið safnað og mikil umræða hefur myndast í kring um málið á samfélagsmiðlinum TikTok undir myllumerkinu #StopWillow, en áætlanirnar eru kallaðar Willow-áætlanirnar, í höfuðið á svæðinu sem um er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert