Neytendavernd á fjármálamarkaði verulega ábótavant

Breki segir neytendur vera í lausu lofti varðandi innheimtuaðferðir smálánafyrirtækja.
Breki segir neytendur vera í lausu lofti varðandi innheimtuaðferðir smálánafyrirtækja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður Neytendasamtakanna segir neytendur vera í lausu lofti varðandi innheimtuaðferðir smálánafyrirtækja hérlendis. Segir hann Fjármálaeftirlitið (FME) [sem heyrir undir Seðlabanka Íslands] og Neytendastofu vísa hvort á annað. 

„Neytendavernd á fjármálamarkaði er að okkar dómi verulega ábótavant. Við höfum frá árinu 2020 óskað formlega eftir aðgerðum frá fjármálaeftirlitinu en höfum ekki fengið nein viðbrögð frá þeim,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.  

Dómsmálaráðuneytið svari ekki

„Þessar innheimtuaðferðir sem notaðar eru hjá einu smálánafyrirtæki virðast ekki vera tekin til skoðunar. Neytendalán heyra undir eftirlit Neytendastofu en innheimta heyrir undir FME. Þessar stofnanir, Fjármálaeftirlitið og Neytendastofa, benda hvor á aðra og hafa gert í þrjú ár. Á meðan tekur enginn af skarið og neytendur eru í lausu lofti gagnvart smálánafyrirtækjunum. Manni virðist því að enginn hafi raunverulegt eftirlit með þessu,“ segir Breki og telur meint áhugaleysi hjá þessum stofnunum vera til trafala fyrir neytendur sem lendi í vandræðum með afborganir af lánum hjá smálánafyrirtækjum.    

„Við höfum óskað eftir því að starfsfólk hjá þessum tveimur stofnunum tali nú saman og finni út úr því hvor stofnunin eigi að fjalla um vinnubrögðin sem viðhöfð eru í innheimtu smálánafyrirtækjum. Neytendur séu þá ekki varnarlausir á meðan. Við þetta má bæta að við höfum ítrekað sent ábendingar á dómsmálaráðuneytið og í mörgum tilfellum er okkur ekki svarað.“

„Gerum verulegar athugasemdir við þetta“

Mbl.is hefur fengið ábendingar um að smálánafyrirtæki auglýsi reglulega á Facebook. Þegar þetta var borið undir Breka segir hann fyrirtækinu ekki vera óheimilt að auglýsa en  samkvæmt lögum um neytendalán telja Neytendasamtökin að koma þurfi fram hvaða vexti lánin bera sem auglýst séu. Honum þykir alvarlegast hvernig vinnubrögðin séu varðandi skuldfærslur. 

„Maður veltir því fyrir sér hvort viðskiptamódel Núnú sé ekki lengur hámarksvextirnir heldur innheimtukostnaður. Við höfum í það minnsta orðið þess áskynja að skuldfærsluheimild sem Núnú hefur vegna þessara lána sé ekki nýtt fyrr en eftir að þau eru gjaldfallin og búið að smyrja ofan á þau innheimtukostnaði. Okkur hafa einfaldlega borist kvartanir vegna þessa og ég get bara talað um dæmi sem við höfum séð hjá viðskiptavinum fyrirtækisins,“ segir Breki og bætir við Neytendasamtökin vilji fá úr því skorið hvort heimilt sé að stunda innheimtu með þessum hætti.  

„Við gerum verulegar athugasemdir við þetta og höfum tilkynnt bæði Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu um þetta athæfi. Við viljum fá úr því skorið hvort þetta sé heimilt því við teljum þetta ekki standast góða viðskiptahætti. Þegar skuldfærsluheimild er til staðar þá á að nýta hana áður en fólk lendir í vanskilum en ekki eftir.“ 

Auglýsing frá Núnú á Facebook.
Auglýsing frá Núnú á Facebook. Ljósmynd/Skjáskot

Regluverkið öðruvísi í nágrannalöndum

Breki bendir á að til séu dæmi um í öðrum löndum að einfaldlega sé sett þak á innheimtukostnaðinn svo ekki sé hægt að smyrja endalaust ofan á hann. 

„Í nágrannalöndum okkar hefur víða verið sett þak á innheimtukostnað og höfum við bent dómsmálaráðherra og þingmönnum á. Við höfum séð lán frá smálánafyrirtækjum margfaldast út af innheimtukostnaði. Í nágrannalöndum okkar er enn fremur óheimilt að auglýsa lán sem bera hærri vexti og kostnað en 25%. Ef slíkt væri raunin hérlendis þá væri óheimilt að auglýsa þessi lán.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert