Óafturkræfar skemmdir á Mýrdalssandi

Óafturkræfar skemmdir hafa myndast á Mýrdalssandi vegna utanvegaaksturs ferðaþjónustuaðila.
Óafturkræfar skemmdir hafa myndast á Mýrdalssandi vegna utanvegaaksturs ferðaþjónustuaðila. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Miklar gróðurskemmdir eru á Mýrdalssandi sunnan Hafurseyjar vegna utanvegaksturs ferðaþjónustufyrirtækja sem selja ferðir að jöklinum.

Jóhann Hróbjartsson, einn eigandi Mýrdalssands, segir landeigendur hafa bent á vandamálið og lagt til að fyrirtækin borguðu aðgang að svæðinu til landeiganda sem færi beint í uppbyggingu. Því var neitað og hafa skemmdirnar raungerst hraðar en hafi verið búist við.

„Ferðaþjónustuaðilar hafa búið til nýjar brautir eins og þeim hentar í hvert skipti en yfirleitt er þessi utanvegaakstur í lítið grónu landi og veldur ekki óafturkræfum skemmdum eins og við erum nú að horfa upp á,“ segir Jóhann.

Menn keyra á 70-90 km/klst. fyrir utan veginn og spæna …
Menn keyra á 70-90 km/klst. fyrir utan veginn og spæna hann upp, Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Ferðaþjónustuaðilar spæna upp veginn

Svæðið sem brautin inn að Hafursey liggur um er með þykkum mosa sem er mjög viðkvæmur. Þegar menn keyra yfir mosann í snjó bælist mosinn undir snjónum og skilur eftir hjólför sem hverfa ekki yfir sumartímann.

„Ég fór þarna fyrir stuttu og ég varð bara fyrir áfalli. Það er vegslóð þarna sem við erum að láta setja inn á aðalskipulag. Slóðin er svolítið niðurgrafin en í rigningu rennur vatn eftir brautinni og hún grefst meira og meira en þarna keyra menn á 70-90 km/klst. og spæna upp veginn,“ segir Jóhann og bætir við að þegar það fer að snjóa fyllist brautin af snjó og krapa sem er erfitt að keyra í og keyra þessir aðilar þá við hlið brautarinnar í mosanum.

Myndin er frá árinu 2019 þegar utanvegaakstur var orðinn vandamál …
Myndin er frá árinu 2019 þegar utanvegaakstur var orðinn vandamál sem landeigendur bentu á. Vandamálin hafa ágerst og eyðileggingin er orðin óafturkræf á landinu. Ljósmynd/Jóhann Hróbjartsson

Umhverfisstofnun á móti landeigendum

Umsjónarmenn jarðarinnar hafa ítrekað bent á utanvegaakstur á jörðinni, ekki einungis á veginum heldur út um allt. Þegar landeigendur tilkynntu skemmdirnar til Umhverfisstofnunar og ætluðust til þess að stofnunin tæki á málinu og þegar þeir lögðu til að borgað yrði til landeiganda fengu þeir Umhverfisstofnun á móti sér og ferðaþjónustuaðilar neituðu að vinna með landeigendum.

„Umhverfisstofnun fór strax í það að við værum að fara að taka vegtolla. Þessi fyrirtæki keyra þarna með 300-400 manns um svæðið daglega á malarslóða í viðkvæmri náttúru án samráðs við umsjónarmenn jarðarinnar. Við ætluðumst til þess að þau myndu greiða gjald til þess að hægt væri að vera með mann í vinnu sem myndi sjá um eftirlit á svæðinu,“ segir Jóhann og bætir við að ekkert hafi heyrst frá Umhverfisstofnun frá því þeir sögðust ætla að skoða málið.

Ljósmynd/Jónas Erlendsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert