Skoða hvort hita þurfi strætóskýli

Samþykkt var á borgarstjórnarfundi í gær að þörf á upphituðum …
Samþykkt var á borgarstjórnarfundi í gær að þörf á upphituðum strætóskýlum í borginni yrði könnuð. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur verður falið að kanna hvort þörf sé á upphituðum biðskýlum fyrir farþega strætisvagna í Reykjavík.

Breytingartillaga meirihlutans um biðskýli var samþykkt einróma á borgarstjórnarfundi í gær.

Breytingartillagan sem var samþykkt gengur út á það að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að kanna þörf fyrir upphituð biðskýli fyrir farþega strætisvagna í Reykjavík, í samhengi við aðgerðir til þess að bæta aðgengi að biðskýlum og endurnýjun á þeim.

Þörfin á skýlunum verði einnig könnuð í samhengi við innleiðingu nýs leiðakerfis og Borgarlínu.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefðu viljað látin verkin tala

Upprunalega tillagan, sem lögð var fram af Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, gekk fram á að ráðist yrði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík.

Aðalmunurinn á þessum tveimur tillögum er sá að upprunalega tillagan fer fram á að strax sé farið í aðgerðir en breytingartillagan, sem var samþykkt einróma á fundinum, fer fram á að þörf á slíkum skýlum verði tekið til skoðunar.

„Ég er mjög ánægður með góðar umræður á fundinum um biðskýlamál og bætta þjónustu strætó,“ segir Kjartan við mbl.is.

„Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktum breytingartillögu meirihlutans í trausti þess að málið verði tekið til jákvæðrar skoðunar í borgarkerfinu. Við hefðum þó fremur kosið að upphafleg tillaga hefði verið samþykkt og verkin látin tala án tafar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert