Áttu að fá 66 þúsund krónur en hlutu 16 mánaða dóm

Fólkið var tekið í tollinum á Keflavíkurflugvelli í desember.
Fólkið var tekið í tollinum á Keflavíkurflugvelli í desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kona og karl voru í lok síðasta mánaðar dæmd í 16 mánaða fangelsi hvort vegna innflutnings á samtals 1.122 Oxycontin-töflum þegar þau komu með flugi frá Katowice í Póllandi í desember í fyrra.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að konan, Aleksandra Sadowska, hafi verið tekin með 477 töflur við komuna á Keflavíkurflugvelli, en að maðurinn, Grzegorz Jan Garstecki, hafi verið með 645 töflur.

Bæði eru þau pólskir ríkisborgarar og lýstu þau fyrir dómi að þriðji aðili í Póllandi hefði verið skipuleggjandi innflutningsins, en þau aðeins tekið að sér að flytja efnin gegn greiðslu upp á 2.000 pólsk slot, eða sem nemur um 66 þúsund íslenskum krónum hvort.

Þá láu fyrir skilaboð sem þau sendu sín á milli dagana fyrir ferðina til Íslands. Hófst það á því að Grzegorz sendi Aleksöndru skilaboð og sagðist vera með „eitt mál til þín“ en vildi svo ekki svara nánar í síma hvað hann ætti við, en tók sérstaklega fram að góðir peningar væru í þessu. Í framhaldinu mæltu þau sér mót og fóru yfir málin. Kom í ljós að þriðji aðili sá um skipulagninguna, útvegaði hótel, flug og efnin.

Einnig láu fyrir skilaboð frá sama degi og þau komu til landsins þar sem Aleksandra sendi Gregorz skilaboð um að „hætta að laga sig þarna“, af því að það sjáist og kom síðar fram að þar væri átt við klof hans þar sem hann geymdi töflurnar, en sjálf var Aleksandra með töflurnar í brjóstahaldara sínum.

Fyrir dómi sögðust þau bæði hafa ákveðið að fara vegna peninga sem þau fengju fyrir viðvikið. Var það 2.000 slot á hvort, eða sem nemur 66 þúsund íslenskum krónum. Sagðist maðurinn vera öryrki og að meðlagsgreiðslur sem hann þyrfti að greiða væru umfram þær örorkubætur sem hann fengi.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði ekki vitað að konan ætti einnig að flytja inn töflur og taldi sjálfur að hann væri aðeins að flytja 40 stykki. Hún taldi hins vegar að hún væri með 100-200 töflur. Þá sagðist hún hafa fengið upplýsingar um að ekki lægi fangelsisvist við innflutningi á töflunum, heldur mest tveir til þrír sólarhringar í varðhaldi.

Dómurinn sagði hins vegar ljóst að bæði hafi farið í ferðina ótilneydd og vitandi að hitt væri einnig að flytja inn efni. Það blasti við að um væri að ræða ólöglegan innflutning og með vísun í fyrri dóma væri ljóst að Oxycontin væri með afar mikla hættueiginleika. Þá væri um samverknað að ræða og það væri metið til refsiþyngingar.

Hins vegar var einnig litið til aðstæðna þeirra, bæði varðandi stöðu Grzegors og að Aleksandra væri nýroðin tvítug. Var þeim að lokum gerð 16 mánaða fangelsi og til að greiða 1,5 milljónir hvort í málsvarnarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert