Beint: Tillögur kynntar um nýtingu vindorku

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði síðastliðið sumar þriggja manna starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku, þ.á m. um lagaumhverfi hennar og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum. Þann 1. febrúar sl. var ákveðið að áfangaskipta starfi hópsins þannig að fyrst yrði skilað skýrslu sem fæli í sér greiningu og mat á viðfangsefninu.

Starfshópurinn hefur nú skilað ráðherra skýrslu sinni og verða niðurstöður hennar kynntar á fundi sem haldinn verður í Vox Club salnum á Hótel Nordica kl. 10:00. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi hér fyrir neðan. 

Starfshópinn skipuðu þau:

  • Hilmar Gunnlaugsson formaður hópsins
  • Björt Ólafsdóttir, fyrrv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála
  • Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrv. alþingismaður.

„Víðtækt samráð var haft við hagaðila við gerð skýrslunnar, en starfshópurinn hefur haldið um 50 fundi, auk þess sem yfir 100 gestir hafa komið á fundi starfshópsins og reglulegt samráð verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga. Um 70 umsagnir bárust starfshópnum.

Í skýrslunni sem er greining og mat á núverandi umhverfi á vindorku hérlendis eru dregin saman ýmis álitaefni og settir fram valkostir um hvaða leiðir séu færar. Málefnin sem fjallað er um er  m.a.  hvort þörf sé á heildarstefnumörkun stjórnvalda um virkjun vindorku, því velt upp hvort vindorka eigi áfram að heyra undir lög um rammaáætlun og hvaða leiðir séu færar við gjaldtöku af vindorkuverum.

Í kjölfar kynningarinnar 19. apríl mun ráðherra, ásamt starfshópnum, halda opna fundi víða um land þar sem fjallað verður um stöðuskýrsluna, sem og orkuskipti með áherslu á hlutverk vindorku.  Mikil áhersla er lögð á að horft sé til þess að ná sem breiðastri sátt um hagnýtingu vindorku meðal landsmanna, en ljóst er af opinberri umræðu að mikill áhugi er um þessi mál í samfélaginu og skoðanir skiptar,“ að því er segir í tilkynningu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert