Öflugasta jarðskjálftahrinan í sjö ár

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul. mbl.is/RAX

Jarðskjálftahrinan í Mýrdalsjökli í morgun eru sú öflugasta sem hefur orðið þar í sjö ár, eða síðan í ágúst árið 2016. Ekkert gos varð þá í jöklinum.

„Þetta er tiltölulega óvenjulegt fyrir Mýrdalsjökul. Það er óvenjulegt að sjá svona stóra skjálfta þar,” segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Tæplega 10 skjálftar hafa orðið á bilinu 3 til 4 að stærð, auk þess sem þrír hafa orðið yfir 4 að stærð.

Salóme Jórunn segir sérfræðinga hjá Veðurstofunni vera að meta stöðuna og rýna í gögn, en fundað var um skjálftahrinuna fyrr í morgun. Meðal annars velta menn fyrir sér hvort ástæða sé til að búast við jökulhlaupi.

„Eins og er sjáum við hvorki merki um að hlaup sé farið af stað né merki um eldvirkni,” segir hún.

Það kemur síðar í ljós hvort fólk verður sent frá Veðurstofunni á vettvang, bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert