„Umferðaröryggi bara til brúks á tyllidögum?“

Ástvaldur Óskarssson er ekki sáttur við það hvernig álverið í …
Ástvaldur Óskarssson er ekki sáttur við það hvernig álverið í Straumsvík hefur tekið á umferðaröryggismálum á svæðinu. Samsett mynd

Ástvaldur Óskarsson,  forstjóri og eigandi Geymslusvæðisins, skrifar opið bréf til Rannveigar Rist, forstjóra Álversins í Straumsvík, í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann  gerir athugasemdir við umferðaröryggismál og fullyrðir m.a. að álverið hafi komið í veg fyrir gerð mislægra gatnamóta á svæðinu.

Ástvaldur bendir í bréfinu á að miklar sviptingar séu að eiga sér stað í skipulagsmálum í kringum fyrirtækin í sunnanverðum Hafnarfirði.

„Ný iðnaðarsvæði eru að koma til, ný höfn er á teikniborðinu og framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar eru á næsta leiti. Mörg stór fyrirtæki eru að koma á svæðið með starfsemi sína og því ljóst að umferð mun aukast verulega, ekki síst þungaumferð stórra bifreiða. Báðir vitum við að erfitt hefur verið að koma skipulagsmálum svæðisins í gott horf og mörg álitamál risið. Ekki er búið að leysa þau öll þegar þessar línur eru skrifaðar. Einkum á þetta við um umferðarmál,“ skrifar Ástvaldur. 

Álverið hafi komið í veg fyrir að hægt væri að hanna gatnamótin 

Hann bendir á að Rannveig, sem forstjóri stærsta fyrirtækisins á svæðinu, hafi lýst því yfir að henni séu öryggismál efst í huga þegar komi að skipulagi umferðarmála.

„Meðal annars var þetta rætt á ágætum kynningarfundi í Bæjarbíói í Hafnarfirði í síðasta mánuði. Þar voru mættir margir bæjarbúar, fyrirtækjaeigendur og flestir forráðamenn Hafnarfjarðarbæjar. Á þeim fundi komu m.a. til umræðu mislægu gatnamótin við innkeyrslu ykkar hjá álverinu, sem aðlaga þarf og breyta samhliða tvöfölduninni. Jafnframt kom fram að þið hjá álverinu komuð í veg fyrir að hægt væri að hanna þessi gatnamót með fullt umferðaröryggi að leiðarljósi. Þetta staðfesti skipulagsstjóri Hafnarfjarðar á þessum fundi. Hann bætti við að hann dreymdi um að hugsanlega í framtíðinni væri hægt að breyta þeim frá núverandi hönnun, þannig að fullkomins umferðaröryggis væri gætt,“ skrifar Ástvaldur, sem spyr hvað hafi komið til.

„Eða er umferðaöryggi bara til brúks á tyllidögum hjá ykkur þarna í álverinu?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert