Snúið að vera „af erlendum uppruna“

Níu höfundar af erlendum uppruna lýsa upplifun sinni af því að búa, skapa og skrifa á Íslandi í ritgerðasafninu Skáldreki sem Una útgáfuhús gaf nýlega út. Tveir þeirra, Natasha S. og Joachim B. Schmidt, sögðu frá útgáfunni, glímunni við íslenska tungu og upplifun sinni af lífinu sem innflytjandi í Dagmálum.

Undanfarin tvö ár hafa skáld af erlendum uppruna verið áberandi í íslensku bókmenntalífi. Spurður hvaða þýðingu uppgangur og athygli á verkum þeirra hafi svarar Joachim: 

„Þetta þýðir að það er tekið eftir okkur og við erum með pláss hér. Við getum verið hér, skapað list og skrifað og verið hluti af þessum skemmtilega rithöfundaheimi hér. Það er rosalega gaman. Mér finnst þetta mjög jákvætt.“

Hann bætir þó við að þetta sé svolítið snúið. Sig langi að vera hluti af samfélaginu án þess að vera alltaf í sér hólfi. „Auðvitað vildi maður að við værum bara hluti af þessum hóp af flottum rithöfundum hér og það væri ekki spurt hvaðan við værum. Að það myndi ekki skipta máli á hvaða tungumáli við værum að skrifa. Það væri draumurinn. En mér finnst þetta vera stórt skref.“

Stór hópur skálda af erlendum uppruna býr hér á landi …
Stór hópur skálda af erlendum uppruna býr hér á landi og skrifar um íslenskan veruleika. Myndin var tekin í tilefni útgáfu ljóðasafnsins Pólífóníu af erlendum uppruna.

Mikilvægt að búa til pláss

Natasha segir að sér finnist fallegt að höfundar af erlendum uppruna vinni saman að verkum sem geri þau að einhverjum hópi. „Það er kannski rétt sem þú [Joachim] segir, að það væri frábært að vera bara rithöfundur og ekki rithöfundur af erlendum uppruna en ég persónulega sé það kannski ekki þannig.“

Hún skrifar nefnilega á íslensku og ekki á móðurmálinu rússnesku. „Ef ég er ekki rithöfundur hér þá er ég ekki rithöfundur neins staðar. Að vera af erlendum uppruna er hluti af mér og mun alltaf vera hluti af mér. Svo ég bara faðma þetta og reyni að láta það ekki trufla mig í ferlinu.“

Innflytjendur sem vilji skrifa glími við margt, s.s. tungumálaörðugleika og baráttu fyrir viðurkenningu. Hún segir þess vegna mikilvægt að búa til pláss þar sem við þeir geti tjáð sig á hvaða tungumáli sem er og talað um það sem liggi þeim á hjarta.

Viðtalið við Natöshu og Joachim má finna hér að neðan, bæði á myndbands- og hlaðvarpsformi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert