Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að funda með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í ráðherrabústaðnum á morgun. Verður fundurinn rétt fyrir upphaf leiðtogafundar Evrópuráðsins sem hefst í Hörpu síðar um daginn. Fyrr hafði verið greint frá því að Katrín myndi funda í dag með António Costa, forsætisráðherra Portúgal.
Katrín mun halda blaðamannafund í kjölfar bæði fundarins með Costa og von der Leyen, en blaðamannafundurinn með von der Leyen verður haldinn 14:45, eða tæplega einni og hálfri klukkustund áður en formleg dagskrá hefst í Hörpu. Þar ætlar Katrín að taka á móti leiðtogum Evrópuráðsríkja og því ljóst að dagskráin er þéttskipuð hjá forsætisráðherra.