Leðurblaka fannst í Kópavogi

Mynd úr safni. Leðurblaka fannst í Kópavogi.
Mynd úr safni. Leðurblaka fannst í Kópavogi. AFP/Menahem Kahana

Sýni úr leðurblöku sem fannst á Smiðjuveginum í Kópavogi undir lok síðustu viku eru nú til rannsóknar á tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

v greinir frá.

Ekki er vitað hvernig leðurblakan barst til landsins en hún var slöpp og með litlu lífsmarki er hún fannst. Þá er heldur ekki vitað hvort þessi tiltekna leðurblaka hafi borið með sér sjúkdóma. Leðurblakan var flutt á Keldur, aflífuð þar og sýni úr henni tekin til rannsóknar.

Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Keldum, sagði í samtali við Ríkisútvarpið að komum leðurblaka hingað til lands hafi fjölgað á undanförnum árum. Hann biðlaði til almennings að reyna alls ekki að handsama þær.

Hættulegustu smitberarnir

Sagði Vilhjálmur leðurblökur þekkta smitbera og þá hættulegustu sem við þekkjum. Sagði hann til dæmis að Hendra-veirur hafi smitast úr ávaxtaleðurblökum í hesta, meðal annars í Ástralíu, og þannig valdið dauða tveggja dýralækna.

Þá nefndi Vilhjálmur Nipah-veirur úr leðurblökum sem ollu faraldri í svínum í Malasíu á tíunda áratugnum. Á þriðja hundrað manns greindist þá með veiruna og var andlátstíðni 40%.

Grunur er um, sögn Vilhjálms, að leðurblökur hafi borið með sér ebólu. Einnig er talið að kórónuveiran, SARS 2, sem olli Covid 19-sjúkdóminum sem barist hefur verið við síðustu þrjú árin, sé leðurblökuveira.

Sagði hann jafnframt að fjölmörg önnur afbrigði SARS-veira komi frá leðurblökum, líklega á milli fimmtíu og sextíu talsins. Eingöngu er vitað að tvö þeirra hafi borist í menn, svo vitað sé til, SARS 1 og 2.

Hann sagði að ein til tvær leðurblökur berist hingað til lands á ári hverju en að heimsóknum þeirra hafi að vísu fjölgað undanfarin ár. Telur hann þær ekki geta lifað hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert