Eiga að vera áhyggjulaus ævikvöld, ekki áhyggjufull

Inga Sæland, formaður Flokks fólksin, og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksin, og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Samsett mynd

Það ætti að vera gleðiefni ef við erum orðin það heilbrigð að við fáum að eldast og eiga áhyggjulaust ævikvöld en ekki áhyggjufullt ævikvöld.“

Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokk fólksins, spurð um viðbrögð við því að mánaðarleg lífeyrisréttindi sjóðfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) lækki um 9,9 prósent um næstu mánaðarmót.

Eins og áður hefur verið greint frá greip LSR til þeirra aðgerða að lækka lífeyrisréttinda sjóðfélaga í A-deild LSR vegna hækkandi lífaldurs Íslendinga byggt á nýjum lífslíkutöflum. Breyt­ing­in á við um þá sem munu fá greitt úr sjóðnum í framtíðinni. 

Segir breytinguna lögbrot

Inga kveðst afar ósátt við þessa breytingu og segir hana hreint og klár lögbrot. Hún reiknar fastlega með því að það verði reynt á þetta fyrir dómstólum. Hún segir þessar aðgerðir vera svívirðingu gagnvart eldri borgurum.

„Það er verið að ganga freklega inn áunnin réttindi fólks. Mér finnst þetta ótrúlega neikvæð skilaboð til eldra fólks að það sé að vera heilbrigt einhverjum árum of lengi.

Mér finnst þessi skilaboð sem við erum að senda inn í þennan þjóðfélagshóp sem hefur eiginlega borið okkur á herðum sér og komið okkur þangað sem við erum í dag vera svívirða.“

Fólk svipt eignarétti

Hún ítrekar að lífeyrisréttindi séu hluti af launum fólks. Að hennar mati sé verið að svipta fólk eignarétti með þessari ráðstöfun. „Þetta er hluti af samningsbundnum launakjörum okkar. “

Spurð hvort að hækkandi lífaldur fólks og rök um að þjóðin sé að eldast nægi ekki til að grípa til ráðstafanna sem þessa segir Inga þau rök byggð á veikum grunni.

„Ég veit ekki betur nema að lífeyrissjóðirnir eigi á sjöunda þúsund milljarða en ég veit svo sem að A-deildin hefur verið á ekki góðum stað en það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta eru áunninn réttindi og það á ekki að skerða þau.“

Útgjöld lífeyrissjóðanna of há

Spurð hvað lífeyrissjóðirnir eigi að gera í staðinn til að koma til móts við hækkandi lífaldur segir Inga að það eigi bara að standa við skuldbindingar sínar. Jafnframt segir hún rekstrarútgjöld lífeyrissjóðanna vera of há.

„Ég veit ekki betur en að þessir sjóðir eigi nóg af peningum og skuli standa við skuldbindingar sínar. Lífeyrissjóðirnir eru að maka krókinn. Lífeyriskerfið á Íslandi kostar í rekstri yfir tuttugu milljarða króna.

Þannig að íslenskir lífeyrisþegar sem eiga þessa lífeyrissjóði eru að greiða tuttugu þúsund milljónir á ári bara fyrir að láta segja sér hvernig þeir eiga að sitja og hvernig þeir eiga að standa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert