Stuðningur við Úkraínu ekki framlengdur

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, lýsti yfir vonbrigðum að tollfrjálsur …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, lýsti yfir vonbrigðum að tollfrjálsur innflutningur frá Úkraínu yrði ekki framlengdur. mbl.is/Hákon Pálsson

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hyggst ekki framlengja ákvæði um tímabundinn tollfrjálsan innflutning frá Úkraínu. Ákveðið var á fundi nefndarinnar í kvöld að ekki yrði lagt frumvarp þess efnis fyrir þingið.

Rúv greinir frá.

Eins og greint hefur verið frá samþykkti Alþingi í fyrra að heimila tollfrjálsan innflutning á landbúnaðarvörum frá Úkraínu. Var þetta gert til að styðja við atvinnulífið og efnahagsástandið í Úkraínu eftir að innrás Rússlands hófst þar í landi. Undanþágan rann út síðustu mánaðamót en síðan þá hefur engin tillaga frá nefndinni borist.

Þórdís lýsti vonbrigðum

Umræður um málið hófust á þingi í dag þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra hvað stæði í vegi fyrir því að tollfrelsið yrði framlengt. Hún bætti við að Þórdís hefði verið mikill talsmaður stuðnings við Úkraínu og undraðist að ekki stæði til að framlengja tollfrelsi á vörum frá Úkraínu.

Þórdís tók þá til máls og sagði að hún hefði vonast til þess að efnahags- og viðskiptanefndin myndi afgreiða málið sem hefði því miður ekki gerst. Þórdís lýsti þá vonbrigðum sínum að það yrði ekki gert fyrir þinglok og benti á að það gæti fyrst gerst í haust þegar þing kemur saman aftur. 

Ósæmandi á meðan Úkraína berst fyrir frelsi

Guðlaugur Þór Þórðarson, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, tók undir orð Þórdísar fyrir þinginu. Hann sagði það ósæmandi að framlengja ekki tollfrelsið á meðan íbúar Úkraínu berjast fyrir lífi sínu og landi. Fjöldi þingmanna tóku þá undir orð Guðlaugs og heyrðist kallað „heyr, heyr“ úr þingsal.

Meirihluti þingsins virðist hlynntur því að undanþágan um tollfrjálsan innflutning frá Úkraínu verði framlengd. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins stigu þó fram og lýstu yfir að þeir styddu Úkraínu af heilum hug en að það væru til betri leiðir til að gera það en að greiða fyrir innflutningi.

Stuðningurinn falli ekki með kjúklingi

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði til að mynda að aðstoð Íslendinga við Úkraínu stæði hvorki né félli með innflutning kjúklings. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir orð flokksbróður síns. 

Minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar, sem samanstendur af þingmönnum Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata, lagði fram sérstaka bókun í dag þar sem þeir lýstu vonbrigðum sínum yfir því að málið yrði ekki afgreitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert