Gat ekki sofið fyrir birtu

Kokkurinn ​Jaouad Hbib galdrar fram marokkóska rétti á Siglunesi á …
Kokkurinn ​Jaouad Hbib galdrar fram marokkóska rétti á Siglunesi á Siglufirði. Það tók hann nokkur ár að venjast birtunni á sumrin og myrkrinu á veturna. mbl.is/Ásdís

Siglufjörður hefur einstakan sjarma fullyrðir blaðamaður fullum fetum. Það hefur hann lengi vitað en það sem hann ekki vissi fyrr en nýlega var að þar væri að finna veitingastað þar sem marokkóskur matur er borinn fram, með öllu sínu ilmandi kryddi og framandi bragði. Þar ræður ríkjum kokkurinn ​Jaouad Hbib sem unir sér vel í firðinum með háu fjöllin, en það var hótelstjórinn Hálfdán Sveinsson sem rakst á hann í Marokkó fyrir mörgum árum og bauð honum vinnu. Og hann sló til.

Hitti Íslendinginn Hálfdán

„Ég kom hingað fyrst í maí 2016 og byrjaði að vinna hér í Siglunesi en ég hafði hitt Hálfdán í Marokkó þar sem ég vann úti í sveit við ostagerð. Vinur minn átti geitur og við ákváðum að búa til ferskan geitaost, og þarna var veitingastaður. Hálfdán kom þangað í mat og eftir matinn bauð hann mér vinnu á Íslandi. Hann var svo ánægður með matinn þarna, sem var allur fenginn úr nærumhverfinu,“ segir kokkur­inn Jaouad.

Hálfdán Sveinsson á og rekur Hótel Siglunes á Siglufirði. Hann …
Hálfdán Sveinsson á og rekur Hótel Siglunes á Siglufirði. Hann rakst á Jaouad í Marokkó og réð hann til sín sem kokk.

„Ég hafði aldrei heyrt um Siglufjörð áður, aðeins um Reykjavík og eldfjöll, um hvali og um víkinga, því ég hafði lært sögu. En ég hafði aldrei komið hingað og ekki hitt marga Íslendinga því það koma ekki margir ferðamenn frá Íslandi til Marokkós.“

Maturinn sætur og sterkur

Hvað fannst þér um landið þegar þú komst hingað fyrst?

„Ég fór beint til Siglufjarðar. Ég kom í maí og gat ekki sofið því það er sól allan sólarhringinn. Það var líka of kalt fyrir mig. Landslagið var mér framandi, nokkuð sem ég hafði ekki séð áður. Blái liturinn er ráðandi og mér líkar við það,“ segir hann og segir myrkrið yfir vetrar­tímann hafa reynst sér erfitt.

„En eftir tvö, þrjú ár fór ég að venjast þessu,“ segir hann og segist hafa haft mikinn metnað í að bjóða hér upp á eitthvað nýtt fyrir Íslendinga og aðra gesti.

„Maturinn okkar í Marokkó er bragðmeiri og allt öðruvísi en norræni maturinn. Við notum meiri krydd, kóríander, steinselju og ólífuolíu. Maturinn okkar er bæði sætur og sterkur,“ segir hann og segir flesta ánægða með matinn hans.

Marokkóskur matur er oft bæði sætur og sterkur í senn.
Marokkóskur matur er oft bæði sætur og sterkur í senn.

„Ég heyri margt gott um matinn. Enginn er fullkominn þótt við mannfólkið reynum það sífellt. En margir eru ánægðir. Ég elda frá hjartanu en ég lærði af mömmu og ömmu,“ segir hann og segist vera kominn af mikilli kryddfjölskyldu.

Ítarlegt viðtal er við Jaouad er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert