Segir aðgerðirnar „stórmál“

Bjarni Benediktsson segir allt of mikið hafa verið gert úr …
Bjarni Benediktsson segir allt of mikið hafa verið gert úr því að það skorti aðhaldsstig í ríkisfjármálin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar um að bæta við þúsund íbúðum félagslegs húsnæðis vera stórmál í sínum huga. Áskoranir í jöfnuði ríkisfjármála komi víða frá, þar á meðal vegna flóttamannavandans. 

„Ég skil ekki af hverju fólk gerir lítið úr því að við bætum við þúsund íbúðum á framboðshlið félagslegs húsnæðis, það er stórmál í mínum huga,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is um gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu og hækkun vaxta.

Hann segir allt of mikið hafa verið gert úr því að það skorti aðhaldsstig í ríkisfjármálin.

„Síðast var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að leggja mat á árið 2023 og sagði aðhaldsstigið hæfilegt miðað við stöðuna í hagkerfinu. Þó að sumir hafi mjög hátt um það að aðhaldið sé ekkert, þá er það alrangt. Það birtist að sjálfsögðu í stórbættri afkomu ríkissjóðs sem hefur á frumjöfnuði batnað um vel rúmlega 200 milljarða á tveimur árum,“ segir Bjarni.

Hálft prósent af landsframleiðslu

„Við höfum metið það þannig, til dæmis á næsta ári, þá séu aðhaldsstig ríkisfjármálanna að minnsta kosti hálft prósent af landsframleiðslu,“ segir Bjarni.

Hann segir máli skipta hvernig sé beitt sér í ríkisfjármálum og telur það hafa verið góð ráðstöfun ríkisstjórnarinnar að boða það að setja aukinn kraft í framboðshliðina á húsnæðismarkaðnum.

„Það er svona um það bil magn sem við treystum okkur að styðja við uppbyggingu og ekki mikið meira,“ segir Bjarni.

„Við getum skapað svigrúm fyrir fjármögnun þessara aðgerða innan fjármálaáætlunarinnar.“

Leggja tóninn fyrir næstu kjaralotu

Bjarni telur verulegu máli skipta þegar fengist er við verðbólguna að gera sér grein fyrir því að vextir dagsins í dag á langtíma skuldbindingum byggi ekki bara á því hvernig verðbólgan hefur þróast síðustu 12 mánuði, heldur miklu meira á því hverju fólk trúir um framtíðina.

„Við erum með þessum nýjustu aðgerðum okkar að fara inn í kjaraþróun æðstu embættismanna ríkisins sem að leggur ákveðinn tón. Það skiptir máli varðandi upptaktinn á næstu kjaralotu,“ segir Bjarni.

Hann segir heildaráhrifin af aðgerðunum annars vegar vera bein fyrir ríkisfjármálin, til dæmis hvað snertir framboð á félagslegu húsnæði, og séu þannig mælanleg.

„Síðan eru þau líka óbein og geta haft áhrif, ásamt öðru sem er að gerast, á væntingar á verðbólgu til framtíðar, og það er það sem við erum að fást við,“ segir fjármálaráðherra.

Kostnaður við umsóknir margfaldast

Bjarni segir ríkisstjórnina standa frammi fyrir ýmsum áskorunum sem þau hafa fengið í fangið.

„Það setur strik í reikninginn í fjármálum ríkissjóðs þegar flóttamannavandinn skellur á okkur, ekki bara vegna Úkraínustríðsins heldur víða annars staðar frá. Það hefur tekið Alþingi allt of langan tíma að bregðast við með breytingu á lögum og reglum,“ segir Bjarni.

Hann segir að dómsmálráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi ár eftir ár lagt fyrir þingið tillögur um að bregðast við vandanum en það hafi ekki verið fyrr en á þessu ári sem fyrstu breytingarnar fengust í gegn á þinginu.

„Í millitíðinni hefur kostnaður ríkissjóðs vegna stjórnsýlunnar við að taka á móti og afgreiða umsóknir um vernd á íslandi vaxið upp úr öllu valdi. Mér sýnist að heildarkostnaður okkar sé orðinn meiri en 15 milljarðar á ári. Þetta eru mjög stórar fjárhæðir. Þetta eru fjárhæðir sem voru innan við milljarður þegar ég byrjaði í ráðuneytinu,“ segir Bjarni.

„Það eru líka slíkar áskoranir sem við erum að fást við samhliða því sem við erum að reyna að ná jöfnuði í ríkisfjármálum.“ 

Óeðlilega mikil arðsemi

Í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins kemur fram að útlit sé fyr­ir að á næstu þrem­ur árum verði full­kláraðar íbúðir sem fari á markað 4.360 færri en áætluð þörf sem er á hús­næðismarkaði. Þetta muni skapa til­heyr­andi ójafn­vægi á milli fjölda full­bú­inna íbúða og áætlaðrar þarfar

„Mér finnst Samtök iðnaðarins hafa gert of lítið úr því hversu mikil arðsemi hefur verið af byggingu íbúðarhúsnæðis á undanförnum árum. Það hefur verið óeðlilega mikil arðsemi af byggingu íbúðarhúsnæðis,“ segir Bjarni.

Hann segir þessa sögulegu arðsemi eiga eina og sér að vera hvati fyrir verktaka til þess að byggja meira íbúðarhúsnæði. Hins vegar dragi nú eitthvað úr þessari arðsemi vegna hækkandi vaxta.

„Þegar þú spyrð mig, munu hærri vextir hafa áhrif á vilja verktaka til þess að fara í framkvæmdir, að sjálfsögðu munu þeir gera það. Það er engin spurning að framkvæmdir verða dýrari við allt annað vaxtastig heldur en var hér fyrir skömmu síðan, það liggur í augum uppi,“ segir Bjarni.

Ríkisstjórnin stýri þó ekki lóðaframboði.

Of mikil áhersla á þéttingu byggðar

Bjarni segir Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra hafa gert sitt til þess að leggja mat á heildar framboð lóða til byggingar á íbúðarhúsnæði.

Þá hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stórbætt tölfræðilega greiningu á því framboði.

„Það er mikilvægt að innviðaráðherra hefur náð að gera samninga við sveitarfélögin þar sem þau lofa að tryggja framboðið.

En það veldur mér áhyggjum að til dæmis á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa verið of lítið framboð til þess að byggja hagkvæmar íbúðir og meiri áhersla verið lögð á að vinna að þéttingu byggðar á dýrum reitum sem skila sér í dýrum íbúðum,“ segir Bjarni.

Ekki allir þræðir í hendi ríkisins

Telur þú að skortur á íbúðarhúsnæði muni auka verðbólgu enn frekar? 

„Á undanförnum árum myndaðist af ýmsum ástæðum misgengi á milli framboðs og eftirspurnar. Eftirspurnin var gríðarleg vegna fólksfjölgunar, líka vegna mjög lágs vaxtastigs og mikilla kauphækkana. Kaupgeta fólks stórjókst.

Það hafði byggst upp mikill skortur á íbúðum á árunum eftir fjármálahrunið sem tók langan tíma að vinna niður. Þetta er eitthvað sem við höfum séð gerast í fortíðinni,“ segir Bjarni.

Rammasamningar innviðaráðuneytis við sveitarfélögin og tölfræðivinnan sem er verið að vinna hjá húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir Bjarni að sé til þess hugsuð að undirbúa ákvarðanatöku inn í framtíðina til að lenda ekki aftur í sambærilegu misgengi.

En við erum ekki með alla þræði málsins í hendi okkar. Við erum að byggja húsnæðismarkaðinn á Íslandi að verulegu leyti á markaðslögmálum. Ég sé ekki annað en það hafi verið gripið til ráðstafanna sem ættu að vera nægjanlegar til þess að stuðla að því að uppbygging íbúða eigi sér stað,“ segir Bjarni.

„Ég get auðvitað ekki svarað því mörg ár fram í tímann hvað nákvæmlega gerist. Hvort það verði meiri eftirspurn eða minni en framboð bíður upp á. Það sem ég veit hins vegar er að við höfum í dag miklu betri greiningagetu og rammasamningar innviðaráðherra við sveitarfélögin eru til þess hugsaði að tryggja að þau skili sínu. Síðan verða þeir sem eru í þeirri starfsemi að byggja íbúðir að taka sínar ákvarðanir, við tökum þær ekki fyrir þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert