Til stendur að endurbyggja gamla Mjólkurstöðvarhúsið að Snorrabraut 54 og breyta því í íbúðahótel.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur heimilað umsækjanda, Rökkurhöfn ehf., að láta vinna breytingu á gildandi deiliskipulagi.
Húsið Snorrabraut 54 var byggt árið 1935 af Mjólkurfélagi Reykjavíkur eftir teikningum Einars Erlendssonar, húsameistara.
Húsið er hannað í fúnkísstíl með klassískum áhrifum, steinsteypt, á tveimur hæðum með kjallara. Samkvæmt fasteignaskrá er stærð þess 986,8 fermetrar og fasteignamat 373,5 milljónir króna.
Síðustu áratugina hafa fjölmörg fyrirtæki verið með starfsemi í húsinu. Má þar nefna Osta- og smjörsöluna, útvarpsstöðina Bylgjuna, OZ og Söngskólann í Reykjavík.
„Húsið nýtur verndar í grænum flokki samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkur um verndum 20. aldar bygginga. Um er að ræða reisulegt hús sem setur svip sinn á götumynd Snorrabrautar en því miður hefur viðhald vantað undanfarið og ásýndin því nokkuð hrörleg í dag,“ segir m.a. í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.
Meira í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.