Vilja millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll

Tillagan var einnig flutt á síðasta löggjafarþingi en náði þá …
Tillagan var einnig flutt á síðasta löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Í greinargerð segir að Hornafjarðarflugvöllur gegni mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins og að mikilvægt sé að skoða áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið. mbl.is/Sigurður Bogi

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins leggja til að skoðað verði hvort á Hornajarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi.

Talað er um millilandaflug með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi í því sambandi til að treysta enn frekar atvinnulíf í Hornafirði og nágrenni og stuðla að frekari uppbyggingu og vexti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Innviðaráðherra falið að skoða málið

Þingmennirnir leggja fram þingsályktunartillögu sem gerir ráð fyrir að innviðaráðherra verði falið að skoða búnað og aðstöðu á flugvellinum með tilliti til þess.

Tillagan var einnig flutt á síðasta löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Í greinargerð segir að Hornafjarðarflugvöllur gegni mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins og að mikilvægt sé að skoða áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið.

Þá segir að ljóst sé að staðsetning vallarins bjóði upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna, sérstaklega í kjölfar tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ráðast þarf í endurbætur

„Í janúar 2008 unnu Flugstoðir greinargerð að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila til að kanna möguleika á að gera flugvellina á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Höfn að millilandaflugvöllum, til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að slíkt gæti orðið að veruleika og hver kostnaðurinn við breytingar af þessu tagi gæti orðið.

Í greinargerðinni kemur fram að gera þurfi endurbætur á öryggis- og eftirlitsþáttum á umræddum flugvöllum þannig að hægt verði að taka á móti minni farþegaflugvélum í millilandaflugi og vélum í ferjuflugi,“ sem segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert