Árekstur árið 2021 sem leiddi til andláts ökumanns Toyota Land Cruiser-bifreiðar, má rekja til þess að ökumaður Volvo-fólksbifreiðar gekk ekki úr skugga um að öruggt væri að taka fram úr gagnvart annarri umferð.
Ók ökumaður fólksbifreiðarinnar töluvert yfir hámarkshraða fram úr röð bifreiða á Suðurlandsvegi á vinstri akrein og framan á Toyota-jeppann, með þeim afleiðingum að ökumaður jeppans lést hálfum mánuði eftir slysið og farþegi í bílnum slasaðist alvarlega.
Ökumaður Volvo bifreiðarinnar var á 127 km/klst hraða þremur sekúndum áður en slysið varð og slasaðist hann lítillega. Ökumaðurinn er sagður hafa haft litla reynslu af akstri.
Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Slysið varð 20. desember árið 2021 á Suðurlandsvegi um 1,2 kílómetra austan við Þingborg í Árnessýslu. Hálka var á veginum og skyggni skert vegna hrímþoku.
Í skýrslunni segir að hálkan hafi sennilega haft áhrif á beygju- og hemlunargetu Volvo-bifreiðarinnar.
Jeppanum var ekið til austurs en auk ökumanns var einn farþegi í bílnum. Fólksbifreiðinni var ekið til vesturs og var ökumaðurinn sá eini í bílnum.
Var ökumaður Volvo-bifreiðarinnar að taka fram úr þremur ökutækjum, vöruflutningabifreið með tengivagn, fólksbifreið og pallbifreið með kerru. Var bíllinn því á gagnstæðum vegarhelmingi á töluverðum hraða þegar að slysið verður.
Rekast vinstri framhorn bifreiðanna saman með þeim afleiðingum að jeppinn valt á hægri hliðina og rann um 10 metra í suður útaf veginum. Fólksbifreiðin hafnaði 55 metra til vesturs frá slysstað, á hvolfi í skurði.
Þá urðu tveir bílar til viðbótar fyrir skemmdum þegar brak út bifreiðunum lentu á þeim.
Vitni segjast hafa verið meðvituð um að árekstur væri yfirvofandi en að ökumaður Volvo bifreiðarinnar hafi ekki nýtt sér mögulegt pláss til að fara inn á réttan vegarhelming á milli þeirra bifreiða sem hann ók fram úr. Gott bil hafi verið á milli og hafði hann tvívegis þann möguleika.
Ökumaður Volvo-bifreiðarinnar var þó ekki sammála þeim vitnisburði og sagði að ekki hafi verið nógu mikið bil milli bíla. Þá hafi hann ekki séð Toyota bifreiðina.
Bíltækni rannsókn leiddi í ljós að hraði Volvo bifreiðarinnar hafi aukist töluvert rétt fyrir slysið. Þannig var hraðinn, samkvæmt aflestri tölvu bílsins, 108 km/klst og inngjöfin 100% fimm sekúndum fyrir slysið.
Þremur sekúndum fyrir slysið var hraðinn aftur á móti orðinn 127 km/klst og inngjöfin 91%.
Sekúndu síðar virkjaðist stöðugleikakerfi fólksbifreiðarinnar og einni sekúndu fyrir slysið vísar stýri 47% í beygju til hægri, hemlun hófst og ABS-hemlakerfi virkjaðist.
Samkvæmt aflestri úr tölvu Volvo-bifreiðarinnar var hraði bifreiðarinnar 114 km/klst er áreksturinn varð.
Ekki er vitað fyrir víst á hvaða hraða Toyota jeppinn var á þar sem tölvubúnaðurinn bauð ekki upp á aflestur af hraða. Vitni segja hins vegar að bifreiðinni hafi verið ekið á um 75-80 km/klst hraða skömmu fyrir slysið.