Skerða mögulega opnunartíma vegna gjaldskyldu

Kristján Aðalbjörn Jónasson ásamt bróður sínum Gunnar Halldóri Jónassyni.
Kristján Aðalbjörn Jónasson ásamt bróður sínum Gunnar Halldóri Jónassyni. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta gæti þýtt að við þurfum að stytta opnunartímann því þeir ætla ekkert að gera fyrir okkur. Það er verið að vinna aðeins í þessu fyrir okkur en ég veit ekkert hvað kemur úr því. Þetta er komið út í vitleysu.“

Þetta segir Kristján Aðalbjörn Jónasson, sem rekur verslunina Kjötborg ásamt bróður sínum Gunnari Halldóri Jónassyni, um breytingar á gjaldskyldu í bílastæði í Vesturbænum sem taka gildi í dag. Hann segir gjaldskylduna hafa töluverð áhrif á rekstur verslunarinnar en þeir bræður nota bíl til að flytja aðföng til og frá versluninni.

Eins og greint hefur verið frá verður gjaldskylda í bílastæði miðsvæði í Reykjavík til klukkan níu á kvöldin, alla daga vikunnar. Þá verður einnig í fyrsta sinn skylda að greiða á sunnudögum. Fyrir skömmu hófst gjaldskylda í Vesturbænum þar sem verslun bræðranna er staðsett þegar gjaldskyld svæði bílastæða í miðborginni voru víkkuð út. 

Fljótt að safnast upp

Þetta veldur því að bræðurnir geta ekki mætt til vinnu eða notað bifreið sem er þeim nauðsynleg til að viðhalda rekstrinum án þess að greiða í bílastæðamæli eða eiga á hættu að fá sekt. Kristján segir upphæðirnar vera fljótar að safnast upp.

„Ég kem þarna á morgnanna og borga 400 krónur til að byrja með. Sektin er 4.500 krónur. Ég er búinn að borga tvisvar sektir síðan að þetta byrjaði. Þetta dregur svolítið úr viljanum til að vera með einhverja þjónustu fyrir viðskiptavini, ég veit ekki hvað þeir gerðu ef að búðin myndi hætta.“

Eins og frægt er hafa bræðurnir rekið verslunina um árabil.
Eins og frægt er hafa bræðurnir rekið verslunina um árabil. mbl.is/Sigurður Bogi

Hann segir að þetta gæti leitt til þess að þeir stytti opnunartíma verslunarinnar og segir að jafnvel komi til greina að loka búðinni á sunnudögum vegna gjaldskyldu. Hann segir ýmsa íbúa í hverfinu sýna þeim stuðning en til að mynda var birt færsla í Facebook-hóp íbúa Vesturbæjar þar sem er biðlað til borgarstjórnar að koma til móts við bræðurna. 

Kristján harmar það að gjaldskyldu á svæðinu hafi verið breytt án þess að samráð var haft við íbúa á svæðinu. „Engin kynning um að þetta væri að koma, allt í einu komu bara einhverjir menn að setja upp staura.“

Þýðir ekki að tala við einhverja undirdáta

„Þetta verður svolítið dálítið snúið í vetur. Ég veit ekki alveg hvað þeir eru að hugsa, það verður enginn á reiðhjólum í brjáluðu veðri á Íslandi um veturna.“

Kristján bendir á að hvorki hann né bróðir hans búi í hverfinu og geti því ekki fengið íbúakort til sleppa við það að borga í stæði þó þeir eigi og reki verslun sem er íbúum mjög mikilvæg. Hann segist vona að Reykjavíkurborg komi til móts við þá með einhvers konar rekstrarkorti eða verslunarkorti fyrir gjaldskyldu stæðin en kveðst ekki vongóður um að það gerist.

„Það kannski endar með því. Maður verður þá bara að tala við Dag, það þýðir ekkert að tala við einhverja undirdáta sem vita ekki neitt og allir benda hvor á annan. Það er alltof mikið af svona stjórnunarliði sem gerir ekki neitt hjá borginni. Þetta er allt í rugli.“

Möguleg áhrif á komu á Grund

Hann segir það einnig sorglegt að þessi gjaldskylda komi mögulega til með að fólk fari sjaldnar í heimsókn á elliheimilið Grund sem er rétt hjá Kjötborginni. 

„Fólk hættir að fara í heimsókn á Grund. Fólk nennir ekkert að borga í einn, tvo tíma í stæði og fara í heimsókn í Grund eða eiga í hættu að fá sekt. Ef við lokum á sunnudögum þá geta þeir sem eru að fara í heimsókn á Grund ekki keypt nammi eða gos fyrir sitt fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka