Upphafið að 4.400 fm viðbyggingu

Svona kemur nýja byggingin til með að líta út.
Svona kemur nýja byggingin til með að líta út. Tölvuteikning/Nýr Landspítali ohf.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tók nú klukkan 13 fyrstu skóflustunguna að nýrri viðbyggingu við Grensásdeild Landspítalans. Fleiri gripu þó í skófluna því Runólfur Pálsson, forstjóri spítalans, Svava Magnúsdóttir, fulltrúi Hollvina Grensásdeildar, Arnar Helgi Lárusson, formaður SEM-samtakanna, og þær Guðbjörg Efemía Magnúsdóttir og Eiríksína Kr. Hafsteinsdóttir, starfsmenn deildarinnar, mokuðu einnig. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu.

Verður nýja viðbyggingin 4.400 fermetrar að flatarmáli og lét heilbrigðisráðherra þau orð falla að hann þættist þess fullviss að þessi langþráða viðbót við Grensásdeildina ætti eftir að reynast starfseminni vel.

Góðar aðstæður fyrir fólkið innan veggjanna

Í allri heildaruppbyggingu Landspítalans er nauðsynlegt að halda því til haga að það er verið að fjárfesta í steypu, veggjum og öðrum innviðum til þess eins að skapa góðar aðstæður fyrir fólkið innan veggjanna. Við erum því fyrst og fremst að fjárfesta í fólki og byggja undir áframhaldandi öfluga heilbrigðisþjónustu,“ sagði ráðherra.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var á meðal þeirra sem tók …
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var á meðal þeirra sem tók fyrstu skóflustunguna að nýrri viðbyggingu við Grensásdeild Landspítalans. Ljósmynd/Eva Björk

Framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., Gunnar Svavarsson, kvað verkefnið við Grensás eitt fjölmargra sem Nýr Landspítali sinnti og jafnframt það fyrsta utan byggingarsvæðisins við Hringbraut.

Nú þegar hönnun er langt komin og jarðvinna er að hefjast þá tekst NLSH á við nýjar áskoranir að byggja í þegar byggðu hverfi. Umhverfis- og öryggismálin eru alltaf hjá félaginu í öndvegi og munu verða það í þessu verkefni líka. Markmiðið er að verklegar framkvæmdir séu unnar í sátt við allt og alla,“ sagði Gunnar.

Sjónvarpssöfnun á morgun

Runólfur forstjóri sagði þörfina fyrir endurhæfingarþjónustu hafa aukist hratt í takt við fjölgun íbúa landsins. „Það er öllum ljóst sem til þekkja að húsnæði Grensásdeildar, sem lítið hefur verið endurnýjað frá því deildin var opnuð fyrir 50 árum, mætir engan veginn kröfum samtímans. Því er sérlega ánægjulegt að loks hilli undir að reist verði viðbygging sem mun valda straumhvörfum því hún verður sérsniðin fyrir nýtingu á nýjustu þekkingu og tækni á sviði sérhæfðs þjálfunarbúnaðar og hjálpartækja í endurhæfingarmeðferð en mikil framþróun á því sviði hefur átt sér stað á undanförnum árum.“

Eitt hjúkrunarrýma nýju byggingarinnar í framtíðarsýn.
Eitt hjúkrunarrýma nýju byggingarinnar í framtíðarsýn. Tölvuteikning/Nýr Landspítali ohf.

Hollvinir deildarinnar hafa lengi stutt við starf hennar og vakið athygli á mikilvægi þess en á morgun, föstudaginn 6. október, standa þeir fyrir tveggja tíma söfnunarþætti í beinni útsendingu á RÚV þar sem fjöldi listamanna kemur fram og rætt verður við starfsfólk deildarinnar og skjólstæðinga.

Guðrún Pétursdóttir, talsmaður Hollvina, bendir á söfnunarreikning fyrir þá sem leggja vilja gjörva hönd á plóg og má sjá upplýsingar um hann hér fyrir neðan. Hollvinasamtök Grensásdeildar eru að sögn Guðrúnar á almannaheillaskrá hjá Skattinum og eru framlög söfnunarinnar því frádráttarbær frá skattskyldum tekjum einstaklinga og fyrirtækja.

„Ég held að það sé óhætt að segja að Grensás sé deildin sem öllum þykir vænt um, en enginn vill vera á. Með því að hjálpast að getum við gert góða hluti fyrir góðan málstað,“ segir Guðrún.

Söfnunarreikningurinn er númer 358-13-000749, kennitala 670406-1210.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert