Þóra Bríet Pétursdóttir hljóp rúmlega 100 km á um 16 klukkutímum til styrktar Gleymmérei-, Parkinson- og Alzheimersamtökunum um liðna helgi. Hún segir að tengdaforeldrar sínir séu hvort með sinn sjúkdóminn en hafi alltaf verið dugleg að hreyfa sig og hreyfing verið mikill þáttur í baráttu þeirra við parkinson og alzheimer.
„Tengdaforeldrar mínir voru mér mikill innblástur til að fara út í þetta erfiði og ég vildi vekja athygli á því að hreyfing er góð, alltaf, þótt ekki sé hollt að hlaupa svona langt í einu. Markmiðinu er náð ef ég ég fæ einhvern einn til þess að hugsa að fyrst ég geti hlaupið 100 kílómetra geti hann hlaupið einn kílómetra.“
Ingvar Hjartarson, samstarfsfélagi Þóru og þjálfari í náttúruhlaupum, eins og hún, skipulagði hlaupaleiðina og hljóp með henni. Þau byrjuðu í Árbænum, hlupu yfir Hólmsheiði og Úlfarsfell, upp að Gunnlaugsskarði og Steini á Esju, aftur inn á Hólmsheiði, um Rauðhóla, Þjóðhátíðarlund, upp á Búrfell og Helgafell í Hafnarfirði, til baka að Hvaleyrarvatni, Vífilsstaðavatni, inn í Guðmundarlund og að Árbæjarsafni, þar sem hlaupinu lauk. „Ég veit ekki til þess að þessi leið hafi veið hlaupin áður en kannski hefur hún verið tengd með öðrum hætti,“ segir hún, en margir hlupu með þeim hina og þessa leggi. „Það var dásamlegur stuðningur.“
Styðja má söfnunina með því að leggja inn á reikninginn (kt. 031294-2159, reikn. 0528-26-005877).
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 7. október.