Tæki og tölvubúnaður í gólfið

Horft yfir orkuverið í Svartsengi.
Horft yfir orkuverið í Svartsengi. mbl.is/Hákon

Við fyrstu yfirferð virðast skjálftar næturinnar ekki hafa valdið HS Orku stórum skaða, að sögn Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins. Lausamunir féllu þó í gólfið á borð við tæki og tölvubúnað.

Hún segir orkuverið í Svartsengi hafa verið mannlaust í nótt, líkt og síðustu nætur.

„Vaktmenn okkar voru í Reykjanesvirkjun og hafa verið alla síðustu viku. Við erum með lágmarksmannskap að degi til í Svartsengi, einungis þá sem þurfa að vera þar framleiðslunnar vegna.“

Þá hefur starfsfólk virkjunarinnar, sem getur unnið fjarvinnu, fengið tilmæli um að gera slíkt síðustu vikuna.

„Við erum líka með starfstöð í Reykjanesvirkjun og nýtum hana sem og starfstöð okkar í turninum í Kópavogi. Þá getur starfsfólk í einhverjum tilfellum unnið að heiman.“

Mannvirki virðast hafa staðið skjálftana af sér

Birna segir lausamuni hafa fallið í gólf, bæði tæki og tölvubúnað og annað í þá veru. Þá segir hún að nú sé verið að fara eftirlitshring um orkuverið í Svartsengi til að kanna málin betur, gæta þess að búnaður sé í lagi og tryggja áreiðanleika hans.

„Heilt yfir virðast mannvirkin hafa staðið þetta vel af sér og öll framleiðsla er í gangi og það er allt eðlilegt.“

Segir Birna það athyglisvert í ljósi þess að HS Orka hafi misst orkuverið í Svartsengi út í minni skjálftum í fyrri hrinum síðustu þrjú ár.

„Nú hélt þetta allt þrátt fyrir að þetta sé kannski með stærstu skjálftum sem við höfum upplifað upp á síðkastið.“

Heitavatnsæð laskaðist í skjálfta

Æðin sem færir heitt vatn til Grindavíkur laskaðist í einum skjálfta fyrr í þessari viku að sögn Birnu en viðgerðum á henni lauk á skömmum tíma.

„Við erum í stöðugu eftirliti og viðhaldi og grípum strax inn í ef eitthvað fer úrskeiðis en til þessa höfum við ekki orðið fyrir neinu teljanlegu tjóni. Sagan sýnir okkur þó að svona skemmdir geta komið síðar fram eins og við þekkjum úr Suðurlandsskjálftunum. Við getum ekki útilokað það frekar en aðrir.“

Birna segir of snemmt að segja til um tjón á lausamunum enda hafi ekki verið farið yfir allan búnað eða tjónið metið að öðru leyti.

Mælst til að starfsfólk vinni annars staðar

Þá segir Birna að allt viðbragð HS Orku hafi verið virkjað 25. október þegar hrinan hófst og allar neyðaráætlanir og öryggismál hafi verið yfirfarin ásamt því að neyðarstjórn hafi verið virkjuð.

„Við höfum verið í startholunum og alla síðustu viku höfum við takmarkað alla umferð í Svartsengi. Við höfum ekki tekið á móti gestum eða verið að fá fólk til okkar. Þá höfum við haldið rýmingaræfingar og uppfært allan okkar öryggisbúnað.

Við erum með tiltækan búnað fyrir það starfsfólk sem er til dæmis mögulega að vinna þannig störf að það þurfi að koma sér hratt undan, kannski vegna einhverra gasefna. Við erum ekkert að óttast það en erum í það minnsta undir það búin.“

Engar breytingar samkvæmt mælum

Miklar framkvæmdir standa yfir við stækkun orkuversins í Svartsengi.

Birna segir Ístak vera verktakann á svæðinu og að HS Orka hafi átt í mjög góðu samstarfi við Ístak á meðan óvissuástandið hafi staðið yfir.

Þá hafi fyrirtækið verið í daglegu samstarfi við Veðurstofuna.

„Okkar sérfræðingar í auðlindastýringunni eru í nánu samstarfi og sambandi við Veðurstofuna. Við erum með mælabúnað sem getur mögulega mælt ef einhverjar breytingar verða í borholum og öðru slíku og erum að útvega Veðurstofunni ákveðnar upplýsingar úr okkar mælitækjum.

Enn sem komið er hafa engar breytingar orðið á mælum í allri þessari hrinu sem hægt er að draga ályktanir af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert