Sprunga gæti orðið allt að 8 km á lengd

Upplýsingafundur 11. nóvember.
Upplýsingafundur 11. nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hvað gerum við núna? Við bíðum og sjáum,“ segir Magnús Tumi Guðmunds­son, jarðfræðingur hjá Háskóla Íslands. Hann segir ástæðuna fyrir að ekki sé öruggt fyrir íbúa að vera í Grindavík vera að ekki sé hægt að útiloka neitt. 

Þetta kom fram á upp­lýs­inga­fundi al­manna­varna í hádeginu.

Hann segir líkur á gosi út á grunnsævinu út af Reykjanesi ekki líklegt, en ef til þess kæmi gæti það orðið eins og Surtseyjargosið. Í heildina yrði það ekki mjög stórt gos. 

Magnús segir að ákafi í upphafi gæti orðið sambærilegur við gosið í Holuhrauni 2015 og ef slíkt kæmi til þyrfti að hafa miklar gætur á gasmengun og taka það alvarlega.

Hefur meiri áhyggjur af hrauni en kvikustrókum

Jafnframt þurfi að takmarka aðgengi fólks að svæðinu meðan slíkt ætti sér stað. Að öllum líkindum yrði slíkur atburður mun skammvinnari miðað við stærðir gosa á skaganum.

Ef sprunga opnist á svæðinu gæti hún orðið allt að 8 km að lengd, að sögn Magnús Tumi en vísar til Kröfluelda þar sem slíkar sprungur opnuðust en einangruðu sig síðan. Líkur séu því á að slíkt hið sama myndi gerast á skaganum.

Út frá rannsóknum á gosum á Reykjanesskaganum sé hins vegar ekki líklegt að kvikustrókahæð á svæðinu verði mikil, en hann kveðst frekar hafa áhyggjur af hrauni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert