Starfsemi virkjunarinnar í Svartsengi eðlileg

Orkuver HS Orku við Svarsengi.
Orkuver HS Orku við Svarsengi. mbl.is/Arnþór

Öll framleiðsla vatns og rafmagns í Svartsengi er eðlileg sem stendur en viðbragð HS Orku er virkt á neyðarstigi, neyðarstjórn er að störfum og starfsmenn í Reykjanesvirkjun fylgjast grannt með framvindu mála.

Þetta kemur fram á vef HS Orku en Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku segir í samtali við mbl.is að allt hafi verið með kyrrum kjörum í nótt.

„Það sem er mjög gleðilegt er að starfsemi virkjunarinnar er eðlileg og hefur verið það nánast í gegnum þessa skjálftahrinu sem hefur verið í gangi síðustu dagana. Það duttu út vélar í stóru skjálftunum á föstudaginn en þær komust í gagnið aftur mjög fljótlega,“ segir Birna.

„Athafnasvæði fyrirtækisins í Svartsengi eru mannlaus og starfsmenn fara ekki inn á svæðið nema brýna nauðsyn beri til og í góðu samráði við almannavarnir ríkislögreglustjóra. Verktakar og vélar eru til taks á vegum almannavarna ef og þegar hafist verður handa við gerð varnarmannvirkja á svæðinu,“ segir á vef HS Orku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert