Rækjan komst í öruggt skjól

Gréta Sóley Sigurðardóttir hjá Dýrahjálp Íslands og Sandra Ósk Jónsdóttir …
Gréta Sóley Sigurðardóttir hjá Dýrahjálp Íslands og Sandra Ósk Jónsdóttir hjá Dýrfinnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rækjur, froskar, gullfiskar, hamstrar og kettir voru meðal þeirra dýra sem sjálfboðaliðar á vegum Dýrfinnu og starfsmenn frá Dýrahjálp Íslands björguðu úr Grindavík í dag. 

Þegar búið var að rýma Grindavíkurbæ á föstudag og ljóst að dýr urðu eftir í bænum, tóku nokkur dýraverndarfélög sig saman og héldu lista yfir þau dýr sem eftir urðu í bænum. Félögin hafa síðan þá freistað þess að fá að fara inn í Grindavík til að bjarga dýrunum. 

Leyfið fékkst loks í dag þegar ákveðið var að hleypa öllum Grindvíkingum að heimilum sínum til að sækja nauðsynjar. Sjálfboðaliðar á vegum Dýrfinnu og starfsmenn frá Dýrahjálp Íslands brugðust þá skjótt við, enda höfðu þau dvalið á stæðinu við Fagradalsfjall síðan í morgun. 

„Það skipta öll líf máli þegar lítil hjörtu eiga í hlut“

Aðspurðar segja þær Gréta Sóley Sigurðardóttir hjá Dýrahjálp Íslands og Sandra Ósk Jónsdóttir hjá Dýrfinnu að kettir, hamstrar, rækjur og gullfiskar hafi verið meðal þeirra dýra sem þær sóttu til Grindavíkur í dag. 

Undrandi spyr blaðamaður hvort rækjur séu gæludýr og svörin standa ekki á Grétu. 

„Það skipta öll líf máli þegar lítil hjörtu eiga í hlut.“

Sandra bætir því við að ung stúlka hafi haft samband við Dýrfinnu og óskað eftir því að hamsturinn hennar yrði sóttur, auk rækjanna, gullfiskanna og froskanna. 

Miklu auðveldara að ná hundum inn í bíl

Þær segjast jafnframt hafa sótt mikið af köttum sem einhverjir eru á leið í neyðarkotið hjá Kattholti. 

„Við erum búnar að sækja mikið af köttum fyrir eigendur sem eru búnir að fara inn á svæðið, en höfðu ekki tök á að taka kettina sína.“

Þá segja þær rosalegan kærleik ríkja milli Grindvíkinga því margir hafi tekið nágranna ketti með sér og komið þeim til eigendanna. 

„Það er miklu auðveldara að ná hundunum inn í bíl, með því að segja bara - viltu koma í bílinn - heldur en að reyna að fá kettina inn í bílinn, hvað þá rækjur,“ sögðu þær að lokum um þann fjölda katta sem eftir varð í Grindavík.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert