Fjölgar í hópnum og lögreglan fylgist með

Bifreiðum hefur verið lagt fyrir innkeyrsluna að fangelsinu.
Bifreiðum hefur verið lagt fyrir innkeyrsluna að fangelsinu. mbl.is/Þorsteinn

Fjöldi fólks í um átján bílum eru nú við fangelsið á Hólmsheiði og ætlar að freista þess að koma í veg fyrir að Edda Björk Arnardóttir verði flutt til Noregs, en hún var hand­tek­in á þriðju­dag og úr­sk­urðuð í gæslu­v­arðhald í tengslum við forsjárdeilu hennar við barnföður sinn sem búsettur er í Noregi. Búið er að leggja nokkrum bifreiðum fyrir afleggjarann að fangelsinu þannig að ómögulegt er að keyra þar framhjá.

Fyrr í kvöld greindi systir Eddu frá því að flytja ætti Eddu úr landi til Noregs í nótt. Lögmaður Eddu sagði í kvöld við mbl.is að gæsluvarðhaldsúrskurður Eddu hefði verið kærður til Landsréttar og von væri á úrskurði um það á morgun.Sagði hann stoðdeild ríkislögreglustjóra standa að mögulegum flutningi hennar til Noregs.

Lögreglan hefur komið við í tvígang í nótt og fylgist …
Lögreglan hefur komið við í tvígang í nótt og fylgist með mótmælendum við fangelsið. mbl.is/Þorsteinn

Lögreglan fylgist með stöðunni og kom í annað skiptið í kvöld að fangelsinu. Í fyrra skiptið ræddu lögreglumenn meðal annars við systur Eddu, Ragnheiði Arnardóttur og fleiri sem voru á staðnum.

Í seinna skiptið, nú rétt fyrir tvö, keyrði lögreglan fram hjá og skoðaði aðstæður.

Meðal annarra sem eru við fangelsið nú eru bróðir Eddu, sonur hennar og tengdadóttir.

Segist fjölskyldan eiga von á því að dragi til tíðinda þegar líði á nóttina, en Ragnheiður hafði heimildir fyrir því að færa ætti Eddu á brott um klukkan fimm í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert