Afgreiðsla Hagstofu Íslands verður lokuð á milli jóla og nýárs en notendur fá þjónustu yfir hátíðarnar. Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri segir viðveru starfsmanna yfir hátíðarnar svipaða nú og í fyrra.
„Þetta er ósköp svipað en þjónustustefnan er skýrari nú en í fyrra,“ segir Hrafnhildur og bætir við að hægt verði að hafa samband við Hagstofu á milli jóla og nýárs.
Stofnunin sætti gagnrýni fyrir síðustu jól eftir að hún tilkynnti að þar yrði lokað á milli jóla og nýárs vegna jólafrís starfsmanna. Á þeim tíma sagði Hrafnhildur við mbl.is að jólaleyfið væri leið til þess að verðlauna starfsmenn fyrir vel unnin störf. Segir hún ekki það sama uppi á teningnum í ár þótt afgreiðslan verði lokuð.
„Vefurinn okkar verður opinn alla daga, öllum fyrirspurnum svarað og óbreytt þjónusta,“ segir Hrafnhildur.
Spurð hvort jafnmargir séu í leyfi nú og í fyrra segir Hrafnhildur: „Það er svolítið erfitt að átta sig á því. Það er erfitt að sjá hver þörfin fyrir þjónustu er,“ segir hún en margir nýti sér svigrúm til þess að stunda fjarvinnu. Starfsfólki sé ekki skylt að mæta á vinnustaðinn á milli jóla og nýárs.
Allur gangur er á því hvort starfsfólk ríkisstofnana fái jólafrí yfir hátíðarnar. Menntamálastofnun verður lokuð á milli jóla og nýárs en hægt verður að hafa samband við stofnunina símleiðis. Hljóðbókasafn Íslands verður lokað á milli jóla og nýárs sem og héraðsdómstólar landsins. Héraðsdómur Vesturlands og Héraðsdómur Reykjaness hefja jólafrí í dag en aðrir dómstólar á Þorláksmessu og jóladag. Skrifstofur Hæstiréttar og Landsréttar hafa verið opnar fyrir hádegi frá 18. desember og helst sá afgreiðslutími til 5. janúar. Dómstólasýslan er opin á milli jóla og nýárs auk flestra bygginga Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnsins og Neytendastofu svo fáein dæmi séu nefnd. Þá verður skrifstofa ríkissaksóknara lokuð á milli jóla og nýárs, líkt og í fyrra.
Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, sagði í samtali við mbl.is í desember í fyrra að ríkið ætti ekki að ganga lengra en almennur markaður í að veita frídaga aukalega. Þegar slík tilvik komi upp vakni spurningar um það hvort fjárheimildir séu of ríflegar.