Hefð hjá mörgum að fara í sund yfir jólin

Lokað er yfir hátíðirnar í Árbæjarlaug og segir fastagestur laugarinnar …
Lokað er yfir hátíðirnar í Árbæjarlaug og segir fastagestur laugarinnar það lélega þjónustu við borgarbúa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er gríðarlega vinsælt hjá fjölskyldum að koma hingað á aðfangadag og orðið að nokkurs konar hefð hjá mörgum, sérstaklega hjá fólki sem er með yngri börn. Svo erum við með mjög marga fastagesti sem mæta hingað klukkan 6:30 á virkum dögum, eldri borgara og fólk sem er að skella sér í ræktina. Þetta er því mikil félagsmiðstöð,“ segir Sigríður B. Guðmundsdóttir, sundlaugarvörður hjá Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði. 

„Við erum einmitt með opið á aðfangadag frá 8-13 en hér bjóðum við alltaf upp á kaffi og hér eru líka piparkökur í boði í tilefni jólanna,“ segir hún.

Óánægja með lokun uppáhaldslaugarinnar

Opnunartími sundlauganna víðs vegar um landið er hins vegar mjög mismunandi yfir jólahátíðina og er Árbæjarlaug ein þeirra sem er lokuð á aðfangadag, jóladag og öðrum degi jóla sem og á gamlársdag.

Svanhildur Árnadóttir, fastagestur í Árbæjarlaug, hafði samband við mbl.is til að lýsa yfir óánægju sinni með þetta fyrirkomulag.

„Þetta er alls ekki góð þjónusta við borgarbúa. Það er stór partur af hefð margra fjölskyldna að fara í sund yfir jólin, sérstaklega á aðfangadag. Fjölskyldur koma gjarnan saman og eiga góða stund í laugunum en við erum til dæmis alltaf tuttugu sem hittumst. Ég er því gríðarlega óánægð með þetta fyrirkomulag og vona ég að úr þessu verði bætt,“ segir hún og bætir við að þó einhverjar aðrar laugar kunni að vera opnar eigi fólk jafnvel sína hverfislaug, uppáhaldslaug, og vilji því helst ekki fara annað.

Margir fastagestir

Guðný Bragadóttir, vaktstjóri hjá Sundlaug Kópavogs, tekur í sama streng og kollegi hennar hjá Suðurbæjarlaug en hún segir fjölmarga sækja laugarnar, sérstaklega á aðfangadag jóla.

„Jú, hingað koma margir og við erum með mjög marga fastagesti. Það er til dæmis hópur hér á morgnana sem er kallaður Húnarnir, því þeir eru bara hérna þegar við opnum. Þeir fara í sund og fá sér kaffi á eftir og ræða málin, þannig er bara dagurinn hjá þeim alltaf,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert