Fjölskyldan býr í bæ þar sem óeirðir brutust út

Alfredo Guevara, ekvadorskur maður búsettur á Íslandi, segir erfitt að vita af ástandinu í heimalandi sínu á meðan hann er svo langt í burtu.

Fjölskylda hans er búsett í bæ þar sem óeirðir brutust út um liðna helgi. Hann segist þó bjartsýnn á að ástandið leiði til þess að einhverjar breytingar verði í Ekvador.

Alfredo og Íris kærasta hans í Amazon skógi
Alfredo og Íris kærasta hans í Amazon skógi

Neyðarástand í landinu

Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Ekvador eftir að átök brutust út í fangelsum um landið allt. Óeirðirnar hófust í kjölfar þess að einn þekktasti glæpaforingi landsins, José Adolfo Macías, slapp úr fangelsi. Hann afplánaði 34 ára dóm en tókst að sleppa eftir að hafa fengið upplýsingar um að flytja ætti hann í annað, verra fangelsi.

Alfredo er búsettur á Íslandi ásamt kærustu sinni, Írisi Líf Stefánsdóttur, og dóttur þeirra. Fjölskylda Alfredo býr í bænum Riobamba þar sem um 40 fangar sluppu úr fangelsum, þar á meðal annar dæmdur eiturlyfjabarón. Átök hafa geisað í bænum síðan á sunnudag.

Bærinn er vanalega friðsamur staður í miðri Ekvador. Hins vegar hafi fangarnir sem sluppu úr fangelsi umbreytt honum. Þeir hafa kveikt bílum, skilið eftir sprengjur og reynt að stela fólki í miðborginni, segir Alfredo í samtali við mbl.is. Í kjölfarið hafa verslanir, skólar og opinberar byggingar skellt í lás. Íbúar flúðu heim í flýti og lokuðu sig inni.

Alfredo segir stöðuna hafa róast aðeins í heimabæ sínum, þó eru enn miklar óeirðir í kringum fangelsið í borginni. Einnig er enn mikið um átök á öðrum stöðum á landinu. Útgöngubann er á milli 11 á kvöldin til 5 á morgnanna um land allt.  

Vonast eftir sameiningu

Alfredo með Fána Ekvador við El Altar fjall.
Alfredo með Fána Ekvador við El Altar fjall.

Hann segir ástandið í Ekvador slæmt og telur það afleiðing margra ára uppgöngu eiturlyfjagengja. Fólk hefur þó sameinast í kringum nýkjörinn forseta landsins, Daniel Noboa, í kjölfar átakanna. Noboa, sem tók við embætti í nóvember, er nýr á sviði stjórnmálanna þar í landi.

Sumir hafa haft áhyggjur af reynsluleysi sitjandi forseta en almennt styður almenningur hann sögn Alfredo. Til að mynda hafa stjórnmálaleiðtogar á sitthvorum enda stjórnmálarófsins lýst yfir stuðningi við forsetann. Fólk í landinu gerir sér grein fyrir því að forsetinn tók við slæmu ástandi og er nú að gera allt sem hann getur til að uppræta það segir Alfredo. 

„Ég elska landið mitt“

Að lokum segist Alfredo vona að ástandið í Ekvador muni leiða til þess að almenningur geri sér grein fyrir því að breytinga er þörf í landinu. 

Alfredo með systur sinni
Alfredo með systur sinni

„Ég er auðvitað bjartsýnn vegna þess að ég vil að hlutirnir verði betri í landinu mínu en ég er líka skelkaður um hversu stórt verkefni er framundan. Spillingin hefur verið að aukast og nú virðast eiturlyfjagengi vera með menn alls staðar í samfélaginu, í stjórnsýslunni og innan lögreglunnar til dæmis," segir Alfredo.

Að lokum segir hann þó að hann voni að atburðirnir síðustu daga verði til þess að ekki verði aftur snúið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert