Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og íbúi í Grindavík, segist vongóður um að það verði hægt að vinna þá lausn áfram í ríkisstjórn að Grindvíkingar verði keyptir út úr fasteignum sínum.
Hann segist enga aðra lausn sjá.
„Þetta er stóra málið sem Grindvíkingar eru að kalla eftir og það mun leysa flest vandamál ríkisstjórnarinnar. Þannig að ég er vongóður um að stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé skilvirkasta og besta leiðin.
Ég skil að það taki tíma fyrir stjórnvöld að taka svona stóra ákvörðun en ég trúi að sú ákvörðun verði tekin þegar stjórnvöld hafa farið vel yfir málið næstu klukkustundirnar.“
Vilhjálmur segir mikla óvissu og þetta sé eina leiðin til að svara þeirri óvissu.
Segir þingmaðurinn Grindvíkinga slegna yfir þeirri stöðu sem þeir eru komnir í og eru búnir að vera í og segir tankinn einfaldlega orðinn tóman.
„Það eina sem þeir biðja um er að þeir verði keyptir út. Það er eina lausnin sem fólkið sér og það er lausnin sem mun leysa öll hin vandamál stjórnvalda.
Fólk er að benda á að þó að því fylgi hár kostnaður mun sá kostnaður koma á einn eða annan hátt seinna í ferlinu.“