„Sérsveitarmenn hafa sín fyrirmæli“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er erfitt að setja sig inn í mál sem maður er ekki sjálfur vitni að. Sérsveitarmenn hafa sín fyrirmæli.“

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, við mbl.is spurður út í viðbrögð hans þegar sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra höfðu afskipti af Grétari Jónssyni, formanni Fjáreigendafélags Grindavíkur, í gærkvöld.

„Ástandið inni í bænum er með þeim hætti sem við þekkjum og þessi einstaklingur eða einstaklingar eru auðvitað í mjög viðkvæmri stöðu,“ segir Úlfar.

Grétar fékk að flytja kindur sínar úr Grindavík í gærkvöld en það gekk ekki átakalaust fyrir sig. Þegar hann mætti sérsveitarmönnunum lá við að upp úr syði. Grétar hafði ekki fengið sérstakt leyfi til að sækja kindurnar en hann ásamt tengdasyni, sem er björgunarsveitarmaður, höfðu komist í gegnum lokunarpósta. Var þeim gert að yfirgefa Grindavík eftir nokkuð heitar samræður við sérsveitarmennina.

„Ég geri ráð fyrir því að sérsveitarmenn þarna á staðnum hafi ef til vill ekki haft upplýsingar um stöðu hjá þessum einstaklingum. Mér skilst að einn þeirra hafi átt eitt af þessum þremur húsum sem eyðilagðist í gosinu en ég veit ekki betur en að málið hafi leyst þokkalega í lokin,“ segir Úlfar.

Hann segir fólkið hafi komið í aðgerðarstjórnstöðina í gærkvöld og niðurstaða þess samtals sem átti sér stað þar var að þeim var hleypt inn á svæðið í fylgd björgunarsveitarmanna.

Fólk er í viðkvæmri stöðu

„Það er alltaf leiðinlegt þegar við lendum í vandræðum með þessum hætti en fólk er í viðkvæmri stöðu og það þarf að huga að mörgum atriðum og sjónarmiðum. Ég held að þetta mál hafi í lokin farið ágætlega,“ segir Úlfar.

Voru þið ekkert búnir að hugsa þetta með þessar kindur og dýr í bænum?

„Lögreglan og aðgerðarstjórnin hefur verið í sambandi við fjáreigendur sem og MAST og mér skilst að það eigi að hjálpa til með brottflutning á þessu fé klukkan 13 í dag. Málið er í vinnslu og vonandi leysast þetta farsælega í dag eins og talað var um í gær.“

Úlfar telur að á annað hundrað fjár séu í bænum sem stefnt er á að flytja úr bænum í dag þar sem fyllsta öryggis verður gætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert