Unnið að nýjum varnargarði austan við Grindavík

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, stendur uppi á varnargörðunum …
Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, stendur uppi á varnargörðunum við Grindavík. mbl.is/Eyþór Árnason

Nú er unnið í kappi við tímann við að hækka varnargarðinn norðan af Grindavík sem leiddi hraunið frá bænum í eldgosinu 14. janúar. Þá er að auki verið að byggja nýjan varnargarð til að verja bæinn.

Þetta segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, í samtali við blaðamann mbl.is í Grindavík.  

„Nú er hann þannig séð á kafi í hrauni og meira að segja gígur inn í miðjum garðinum. Nú er bara staðan sú að við þurfum að hækka hann til þess að hann geti þá tekið við næsta hraunaburði,“ segir Jón.

Nýr varnargarður austan við bæinn

Einnig var um helgina byrjað vinnu við gerð nýs varnargarðs austan við bæinn til þess að leiða hraunstraum til austurs. Hraunið sem kom úr gosinu síðast veldur því að búið er að breyta rennslisleiðunum fyrir nýtt hraun og því þarf nýjan varnargarð til að verja bæinn.

„Að þessu óbreyttu myndi annars renna hraun meðfram nýja hrauninu og þaðan inn í bæinn. Þannig við viljum grípa það og beina því hérna austur fyrir.“

Það rýkur enn úr hrauninu sem kom í gosinu þann …
Það rýkur enn úr hrauninu sem kom í gosinu þann 14. janúar. mbl.is/Eyþór Árnason

Jón segir að starfsmenn hafi frá því nóvember unnið í kapphlaupi við tímann og þannig sé staðan enn í dag. Varnargarðarnir við virkjunina í Svartsengi eru fullmótaðir og klárir.

Ný aðkoma að Bláa lóninu

„Vinnan sem stendur yfir þar er í raun og veru að ganga frá vegþverunum, lagnaþverunum, aðlögun að Bláa lóninu – mannvirkjum sem eru þar. Hún [vinnan] er í góðum gangi og það er verið að gera nýja aðkomu að Bláa lóninu sem er þá utan garðanna,“ segir hann.

Nefnir hann að verið sé að grafa heitavatnsleiðsluna frá Svartsengi að Reykjanesbæ og að Landsnet sé að hækka raflínuna sem fyrir. Unnið er allan sólarhringinn við að tryggja mikilvæga innviði á svæðinu.

„Tækin stoppa ekki neitt nema í vaktaskiptum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert