Vill varnargarða á Vellina

Árni Hjartarson.
Árni Hjartarson. mbl.is/Eyþór

Rétt er að ígrunda vel frekari uppbyggingu sunnan og austan við höfuðborgarsvæðið vegna aukinnar eldvirkni. Þá gæti verið tilefni til að undirbúa varnar- og leiðigarða, ekki síst við Vallahverfið í Hafnarfirði.

Þetta segir Árni Hjartarson jarðfræðingur en í grein hans „Jarðfræði höfuðborgarinnar og náttúruvá“ í bókinni Reykjavík á tímamótum (2017) er fjallað um þessa áhættu.

„Þótt Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt sé almennt talið vera nokkuð öruggt svæði gagnvart náttúrulegum ógnum þurfa menn samt sem áður að vera vel á varðbergi. Ýmsar hættur geta steðjað að svæðinu þótt áætluð atvikatíðni sé hvergi há. Í skipulagsmálum verður að taka tillit til þessara þátta og það hefur raunar verið gert um langt skeið. Náttúruváin getur birst í ýmsum myndum,“ skrifaði Árni og nefndi meðal annars eldgos og hraunflæði.

Nærri eldgosabelti

Hann gerði nánari grein fyrir þessari áhættu: „Reykjavík er í næsta nágrenni við eldgosabeltið á Reykjanesskaga. Ekki eru nema 7 km frá byggðarmörkum borgarinnar og í næsta eldgíg, sem er í Búrfelli, fyrir ofan Hafnarfjörð. Byggðinni stafar þó ekki mikil bein hætta af eldgosum. Hverfandi líkur eru á að eldsprungur opnist eða að eldgos brjótist út innan núverandi byggðarmarka. Hraunrennsli getur hins vegar skapað ógn. Hraun komast þó ekki inn fyrir byggðarmörk Reykjavíkur nema á einum stað. Það er um Elliðaárdal. Slíkt hefur einu sinni gerst síðan ísöld lauk. Það var fyrir 5.200 árum, þegar Leitahraun rann.

Í Hafnarfirði og Garðabæ setja hraun mikinn svip á landslagið og hlutar þessara byggðarlaga standa á tiltölulega ungum hraunum. Búrfellshraunið sem rann frá Búrfelli ofan Hafnarfjarðar og til sjávar er 8.000 ára gamalt. Flatahraun sem Vallahverfið í Hafnarfirði er á rann frá Brennisteinsfjöllum á 10. öld og Kapelluhraun sem Álverksmiðjan í Straumsvík stendur á rann í Krísuvíkureldum árið 1226. Sú kemur vafalítið tíð að hraunflæði mun ógna byggð í Hafnarfirði og Garðabæ en atvikatíðnin er það lág og áhættan það lítil að ekki hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir gagnvart þessari náttúruvá,“ skrifaði Árni.

En nú hafa eldstöðvakerfin á Reykjanesi vaknað til lífsins.

Árni segir þetta fyrra mat sitt í greininni óbreytt. Hins vegar sé byggð að þéttast við Elliðavatn og rætt um íbúabyggð við Gunnarshólma austur af Rauðavatni. Því sé byggð að færast nær virku sprungusvæði og það þurfi að taka til greina í öllum áætlunum.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert